Ómögulegt er að segja til um hvenær störfum Alþingis lýkur, að sögn Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis.
Fjöldi mála bíður enn afgreiðslu þingsins þrátt fyrir að dagskrá þess geri ráð fyrir að því ljúki í dag. Þá voru m.a. lögð fram fjögur stjórnarfrumvörp í gær.
Eitt þeirra stóru mála sem bíða afgreiðslu er frumvarp vegna gjaldeyrishafta. Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, að það hafi greinilega ekki verið tekið tillit til gagnrýni á málið. „Þarna er að mínu viti verið að leggja fram breytingar sem samrýmast ekki þeim grundvallarreglum sem gilda í okkar samfélagi,“ segir Páll í viðtalinu.