„Nóbelsverðlaunahafar í hagfræði, Joseph Stiglitz og Paul Krugman, voru sammála um að ríkisstjórn Íslands hefði gert rétt haustið 2008 þegar hún lét bankana falla“ segir Þorsteinn Þorgeirsson, ráðgjafi á skrifstofu bankastjóra Seðlabankans, í grein í Morgunblaðinu í dag. Segir hann að þeir telji að með því hafi verið komist hjá því að leggja þungar skuldabyrðar á komandi kynslóðir. Það er mikið til í þessu, segir Þorsteinn, en um leið skapaði hrun bankanna flóknari og margþættari atburðarás en þessi einfalda framsetning gefur til kynna. Þannig var alls ekki sjálfgefið að hagkvæmasta leiðin yrði fyrir valinu til að bregðast við hruninu og mikil óvissa var um hvað tæki við í kjölfarið.
Í grein sinni segir ráðgjafinn m.a.: „Einn mikilvægasti hluti af viðbrögðum stjórnvalda við hruninu var að innleiða fjármagnshöft eftir að íslenska krónan hafði glatað um helmingi af verðmæti sínu á gjaldeyrismarkaði. Með því að stöðva frekari gengislækkun var komið í veg fyrir enn meiri hækkun gengisbundinna og verðtryggðra skulda í krónum talið.“
Lokaorð Þorsteins: „Niðurstaðan af rannsókn okkar er nokkuð skýr. Hún bendir til að stjórnvöld hafi borið gæfu til að velja skástu leiðina út úr hruninu haustið 2008. Með því að takmarka skuldsetninguna umfram það sem hefði orðið ef aðrar leiðir hefðu verið farnar var velferðartap þjóðarinnar af bankahruninu lágmarkað.“