„Kórónugos varð á sólinni í gærmorgun og mikið ský rafhlaðinna einda þeyttist út í geiminn. Hluti þess er á leið til jarðar á miklum hraða. Eindaskýið kemur líklega til jarðar síðdegis í dag eða í kvöld, en nákvæm tímasetning liggur ekki fyrir. Búast má við öflugum norðurljósum um helgina,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.
Veðurstofan segir að aðstæður verði eflaust bestar á Suðurlandi og uppsveitum suðvestan- og vestanlands.
Tekið er fram að vestast á landinu gæti þó háskýjaslæða legið yfir um tíma. Búast megi við skýjabakka við sjávarsíðuna á Norðurlandi vestra, en víða léttskýjað inn til landsins. Skýjabakki verði um tíma yfir Vestfjörðum í kvöld og fram á nótt, einkum á sunnanverðum Vestfjörðum, en annars fremur léttskýjað. Á Norðurlandi eystra og Austurlandi sé búist við að það verði skýjað að mestu.