Mál eru enn rædd af miklum móð í þinginu og ómögulegt að segja til um hvenær þinglok verði, að sögn Illuga Gunnarssonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins.
„Engin niðurstaða er komin í hvenær þinginu mun ljúka, en í morgun funduðu flokksformenn. Þingsflokksformenn hafa líka fundað en ekki er komin endanleg niðurstaðaí þetta mál. Áfram heldur því þingfundur,“ segir Illugi en eins og mbl.is hefur áður greint frá átti þinginu að ljúka í gær samkvæmt dagskrá. „Vonandi komumst við nær samkomulagi eftir því sem líður á daginn,“ segir hann.
Að sögn Illuga kom ekkert markvert fram á formannafundinum í morgun. Aðspurður segir hann tekist á um margt á þessum lokaspretti. „Við lok þings og kjörtímabils er iðulega allt undir, menn takast á um hvað er raunhæft að klára og hvað er nauðsynlegt að vinna áfram og eins um hvaða mál er það mikill ágreiningur að óraunhæft er að klára þau fyrir lok. Svo er líka verið að sigta þau mál út sem mestu máli skiptir að klárist, bæði fyrir atvinnulífið og heimilin. Góð sátt er um að þau mál klárist fyrir þinglok. Engu að síður tekur tíma að negla þetta allt niður,“ segir Illugi.
Hann segir ekki mikil átök ríkja í augnablikinu. „Það getur verið að þau aukist síðar meir, en á þessum tímapunkti eru átök í lágmarki,“ segir Illugi. Aðspurður segir hann ómögulegt að spá fyrir um hvenær þinglok verði.