Sífellt færri vilja verða leikskólakennarar

Umsækjendur um nám leikskólakennara í HÍ og HA árin 2006 …
Umsækjendur um nám leikskólakennara í HÍ og HA árin 2006 - 2012.

Umsóknum um leikskólakennaranám hefur fækkað jafnt og þétt undanfarin ár. Síðastliðið haust voru umsóknir um námið við Háskóla Íslands minna en þriðjungur þess sem var haustið 2006, þeim hefur fækkað úr 204 í 63 á þessu tímabili.

Námið var lengt um tvö ár, úr þremur árum í fimm árið 2011, þegar ný lög um menntun og ráðningu kennara tóku gildi og núna þarf MA-próf til að fá leyfisbréf bæði á grunn- og leikskólastigi.

Hægt er að leggja stund á leikskólakennaranám í Háskóla Íslands og við Háskólann á Akureyri. Nokkuð fleiri fara í HÍ, en þar innritaðist 25 nemandi í fyrrgreint nám síðasta haust, en um 12 hafa innritast í það í HA undanfarin ár.  Athygli vekur að umsækjendum hefur fækkað hlutfallslega meira í HÍ en í HA.

Metaðsókn á Akureyri haustið 2008

Þá er það ekki síður athygli vert að haustið 2008 sóttu tíu sinnum fleiri um námið við HA, 130 umsækjendur á móti 13 árið á undan. Samkvæmt upplýsingum frá Háskólanum á Akureyri sóttu svona margir um námið þá vegna fyrirhugaðrar lengingar þess, en lög um að það yrði lengt í fimm ár voru sett árið 2008 og þau tóku síðan gildi haustið 2011.

Karlar í miklum minnihluta

Karlar eru í miklum minnihluta þeirra sem sækja um námið í báðum skólunum Árið 2006 sóttu tveir karlar um að komast inn í leikskólakennaranám eða um 1% umsækjenda. Síðasta haust sóttu 63 um námið, þar af  fjórir karlar eða 6,5%. Undanfarin sex ár hafa samtals tveir karlar sótt um leikskólakennaranám í Háskólanum á Akureyri, það eru um 1% allra umsækjenda á tímabilinu.

Leikskólakennarar eiga að vera 2/3 starfsmanna leikskóla

Samkvæmt lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda eiga leikskólakennarar að vera ⅔ þeirra sem starfa á leikskólum. Raunveruleikinn er þó talsvert annar. Árið 2010 var heildarfjöldi starfsfólks í leikskólum 4.979  í 4.376 stöðugildum. Þar af voru 1.707 leikskólakennarar starfandi í 1.548 stöðugildum, sem er um ⅓ af heildarfjölda.

Eigi að fara eftir þessum lögum, þyrfti því að fjölga leikskólakennurum í fullu starfi um 1.500. Samkvæmt spá starfshóps á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins ætti það að gerast eftir 28 ár, eða árið 2041.

Kjaramál og lenging náms gæti verið skýringar

„Það eru líklega margar skýringar á þessu,“ segir Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara. „Til dæmis kjaramál og svo er ekki hægt að útiloka að lenging námsins hafi haft eitthvað að segja.“

Í skýrslu um aðgerðir til eflingar leikskólastigsins, sem unnin var fyrir Mennta- og menningarmálaráðuneytið í fyrra, segir að grípa þurfi til „sértækra aðgerða“ til að skapa leiðbeinendum möguleika til að mennta sig til starfa á leikskólum.

Slíkir möguleikar eru ekki fyrir hendi eins og er. Haraldur er einn skýrsluhöfunda og segir að áður hafi ómenntuðum starfsmönnum leikskóla staðið til boða að fara í diplómanám og fengu þeir þar með starfsheitið aðstoðarleikskólakennari. Margir hafi kosið að halda áfram námi og ljúka leikskólakennaranámi. Hann segir mikla þörf fyrir að svipað nám verði tekið upp að nýju.

„Það er ein af þeim hugmyndum sem við viljum keyra aftur í framkvæmd og við leggjum til að hægt verði að fara nokkrar leiðir að leyfisbréfinu.“

Engar töfralausnir eru til

Í gegnum tíðina hefur margoft verið bent á ójafnt kynjahlutfall í stéttinni og að farsælt væri að fjölga þar körlum. Það hefur lítið breyst, þrátt fyrir umræðu og ýmsar aðgerðir.

„Það eru ekki til neinar töfralausnir við þessu, “ segir Haraldur. „Laun hafa sjálfsagt eitthvað að segja, en ekki síður ímynd, hefðir og venjur. Annars held ég að allflestir vilji fá góð laun þegar þeir ljúka háskólanámi, ekki bara karlar heldur líka konur.“

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara.
Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara.
Spá um þróun á þörf fyrir leikskólakennara byggð á mannfjöldaspá …
Spá um þróun á þörf fyrir leikskólakennara byggð á mannfjöldaspá Hagstofu Íslands og mögulegur fjöldi útskrifaðra leikskólakennara fram til 2041. Úr skýrslu um aðgerðir til eflingar leikskólastigsins
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert