Hættulegt að sofna á verðinum

Anna Pála Sverrisdóttir er formaður samtakanna '78.
Anna Pála Sverrisdóttir er formaður samtakanna '78. mbl.is/Kristinn

Anna Pála Sverrisdóttir var á dögunum kjörin formaður Samtakanna '78, sem síðastliðin 35 ár hafa barist ötullega fyrir réttindum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transfólks á Íslandi og unnið marga stóra sigra. En þótt lagalegu jafnrétti sé náð eru verkefnin ærin að sögn Önnu Pálu og hættulegt að sofna á verðinum. Hún segir mikið starf framundan.

„Það er ekki óalgengt að ég fái þessa spurningu; hvort þetta séu ekki bara orðin einhver puntsamtök, en það er aldeilis ekki þannig,“ segir Anna Pála. Áherslurnar hafi þó tvímælalaust breyst og baráttan í dag snúist meira um lífsgæði en lagaleg réttindi.

„Það er grunnt á fordómunum og það er ekki nóg að þjóðin mæti einn dag á ári í Gleðigöngu og horfi á skemmtilega sýningu, þótt það sé í sjálfu sér frábært, heldur er verkefnið núna að fá fólk til að muna eftir réttindum hinsegin fólks alla hina 364 dagana. Ég segi að það sé grunnt á fordómunum af því að það hefur sýnt sig í könnunum. M.a. í könnun á gildum Evrópubúa 2009 þar sem fram kom að 25% Íslendinga þætti samkynhneigð ekki réttlætanleg.“

Þörf á aukinni fræðslu

Anna Pála segir að blessunarlega hafi margir komið út úr skápnum án þess að það hafi verið nokkurt tiltökumál en enn sé fjöldi fólks sem hafi ljótar sögur að segja af þeirri lífsreynslu og á meðan sé brýn þörf fyrir samtökin. Anna Pála hefur starfað fyrir trúnaðarráð Samtakanna '78 síðastliðið ár en það voru m.a. fréttir af árás á transmann í miðbænum í fyrra sem kveiktu í henni löngun til að leggja meira af mörkum.

„Ég held að það sé mjög hættulegt viðhorf að baráttunni sé lokið, því þá byrja fordómarnir að grassera aftur og það er ekki sjálfsagt að við höldum þeim réttindum og þeirri stöðu sem við höfum í íslensku samfélagi í dag. Við sjáum bara t.d. á heimsvísu hvað það er ofboðslega mikil andstaða við aukna vitundarvakningu um réttindi hinsegin fólks,“ segir Anna Pála.

Hún segir mikilvægt að starf samtakanna í framtíðinni snúi að aukinni fræðslu, t.d. til kennara og annarra fagaðila sem vinni með börnum. Orð eins og „hommi“ séu enn notuð í meiðandi tilgangi, t.d. á skólalóðinni, og það sé ekki sjálfgefið að fagaðilar viti hvernig þeir eigi að tala um fordóma. Þá hefur hún mikinn áhuga á að ráðgjafaþjónusta samtakanna verði áberandi í starfi þeirra.

„Við vitum alveg að það er mjög mikil þörf á ráðgjöf til einstaklinga því ásókn í hana hefur verið að aukast. Við erum með þrjá ráðgjafa í hlutastarfi en svo er líka talsvert haft samband við skrifstofuna okkar út af hinu og þessu,“ segir hún.

„Ég vil eindregið hvetja þá sem vantar einhvern að tala við til að hafa samband við okkur, því til þess erum við. Við höfum örugglega öll upplifað einhver rosalega vandræðaleg augnablik í kringum það að koma út úr skápnum og það er miklu betra að halda þessu ekki fyrir sig, heldur tala við annað fólk sem þekkir það að vera í þessari stöðu.“

Hommar fái að gefa blóð

Anna Pála segir að meðal annarra verkefna sem bíði nýrrar stjórnar sé baráttan fyrir því að samkynhneigðir karlmenn fái að gefa blóð og að sjá til þess að samkynhneigð ungmenni verði ekki útundan í umræðunni um kynheilbrigðismál og kynfræðslu. Þá verði fjölskyldumál í brennidepli, m.a. ættleiðingar samkynhneigðra.

„Það voru sett lög árið 2006 sérstaklega til þess að samkynhneigð pör hefðu jafnan möguleika á við gagnkynhneigð pör til að ættleiða. En það er ekki raunin í dag vegna þess að Ísland er ekki með samninga við lönd þar sem ættleiðingar samkynhneigðra eru leyfðar,“ segir hún. „Svo þessi réttindi eru í raun ekki til, nema innanlands, þar sem ættleiðingar eru fáar.“

Nýkjörin stjórn Samtakanna '78 ákvað á sínum fyrsta fundi að boða til samráðsfundar um áherslur samtakanna. „Við ætlum að efna til stórs fundar um stefnumótun, nokkurs konar þjóðfundar ef svo má segja, þar sem við ætlum að bjóða öllum félögum okkar og velunnurum að koma saman og tala um það hvar baráttan stendur og hvernig sé mikilvægast að samtökin beiti sér,“ segir Anna Pála. Hún segir að samtökin hafi skipt öllu máli fyrir mannréttindabaráttu hinsegin fólks í gegnum árin en þeirra hlutverki sé langt í frá lokið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert