Hátt á annað hundrað manns fögnuðu í dag hundrað ára afmæli Guðrúnar Guðjónsdóttur á Eyrarbakka. Hún er fædd á Brekkum í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu, næstyngst níu systkina en þau elstu urðu 92 ára og 96 ára.
Þetta kemur fram á Facebook-síðu Langlífis.
Vorið 1937 flutti Guðrún til Eyrarbakka ásamt eiginmanni sínum Kristni Vilmundarsyni, sem alinn var upp á Arnarhóli í Vestur-Landeyjum. Hann lést á aðfangadag 1945, aðeins 34 ára. Þá voru þrjú börn þeirra á aldrinum sex til átta ára. Seinni maður Guðrúnar var Jón Þórarinsson, en hann lést árið 1998.
Guðrún er mjög ern og í afmælisveislunni í dag virtist hún þekkja flesta með nafni og vita fæðingardaga margra afkomendanna, en þeir eru orðnir 73. Guðrún tók undir í söng og ávarpaði veislugesti í lokin. Hún býr á Sólvöllum, dvalarheimili aldraðra á Eyrabakka.