„Það er með ólíkindum að hverju ég hef komist frá því að ég byrjaði að kanna verð um miðjan febrúar. Maður hefði vart trúað því hvað vöruverð er breytilegt, þetta húrrast upp og niður án alls fyrirvara,“ segir Reynir Ásgeirsson Kópavogsbúi sem upp á sitt einsdæmi tók að sér að kanna verð á 170 vörutegundum í 7 matvöruverslunum.
„Það er engu líkara en hér sé um einhvers konar fjárhættuspil að ræða þar sem kaupmenn sitja með rafrænar stýringar á þessu og hækka þetta og hitt ýmist um 2-3 krónur eða mun hærri upphæðir og lækka annað, “ segir Reynir. „Þetta hefur svo þær afleiðingar að fólk verður alveg kexruglað og missir allt verðskyn. Neytendur vita rétt svo hvað mjólkurlítrinn kostar, en þá er það líka nánast upptalið,“ bætir hann við.
Eins og gefur að skilja var tímafrekt og umfangsmikið verkefni að kanna þennan mikla fjölda vörutegunda í 7 verslunum. Reynir greiddi allan kostnað við framkvæmdina úr eigin vasa, bensín- og símakostnað. „Þetta var geysilega mikið verk og oft á tíðum erfitt að bera nákvæmlega saman verðin. En ég þjösnaðist engu að síður í gegnum þetta og vann verkið samkvæmt bestu samvisku,“ segir Reynir. Hann naut þó liðsinnis frá syni sínum við tæknilegu hlið framkvæmdarinnar. „Einn sonur minn hjálpaði mér mikið við að færa upplýsingarnar yfir á tölvutækt form, setja upp formúlur fyrir litakerfið og annað slíkt,“ segir Reynir.
Inntur eftir því hversu margir klukkutímar hafi farið í verkefnið segir Reynir þá skipta tugum. „Ég hef verið vakinn og sofinn yfir þessu síðan 15. febrúar þegar þetta hófst,“ segir hann.
Nýtti lausan tíma í verkefnið
Kveikjan var sú að Verkalýðsfélag Akraness blés ásamt öðrum aðildarfélögum innan ASÍ til átaks gegn verðhækkunum. Almenningur var hvattur til að vera á varðbergi undir kjörorðinu Vertu á verði og hjálpa þannig til við að rjúfa vítahring verðbólgunnar. „Ég tók þessari áskorun einfaldlega. Ég atvinnulaus og hef þess vegna svolítinn tíma sem ég ákvað að nýta í þetta verkefni,“ segir Reynir en hann starfaði sem bóndi á árum áður.
„Mér finnst þær verðkannanir sem kynntar eru fyrir almenningi ekki skila nægilegum árangri. Það sem helst fæst út úr þeim er hvað verð tiltekinnar körfu hefur breyst mikið í prósentum frá síðustu könnun. Það segir manni lítið, ég tel það vera skilvirkara að mæla einfaldlega hvar tilteknar vörur eru ódýrastar með samanburði,“ segir Reynir.
Niðurstöður könnunarinnar voru á þann veg að Bónus var oftast með lægsta verðið og Hagkaup þau hæstu. „Ég setti þetta upp í litakerfi svo að fólk ætti auðvelt með að lesa í niðurstöðurnar, lægstu verðin eru grænmerkt og þau hæstu rauð að lit,“ segir hann.
Aðspurður hvort ekki hafi freistað að fækka vöruflokkunum til að létta verkið segir hann svo ekki vera. „Þetta var vissulega mikil vinna fyrir einn mann en að mínu mati er nauðsynlegt að hafa vörutegundirnar svo margar til að könnunin nýtist fólki raunverulega,“ segir Reynir.
Óskar eftir liðsinni frá neytendum
Hann hefur hug á að könnunin nái augum sem flestra neytenda. Könnunin var birt á vef Verkalýðsfélagsins, auk þess sem ég sendi hana út til allra minna Facebook-vina, sem reyndar eru ekki mjög margir,“ segir Reynir. „Auk þess sendi ég könnunina til Neytendasamtakanna til fróðleiks. Bæði Verkalýðsfélagið og Neytendasamtökin hafa síðan sent mér þakkarbréf, svo ljóst er að framtakið er metið,“ segir Reynir.
„Framhaldið er hins vegar alveg undir því komið að aðrir áhugamenn um neytendamál og vöruverð leggi mér lið. Það gætu þeir til dæmis gert með því að senda mér upplýsingar á borð við ljósrit af kassakvittunum í tölvupósti. Þá er ég tilbúinn að gera tilraunir til að uppfæra þessar upplýsingar og birta kannanir örar en almenningur á að venjast. Þessar kannanir eru yfirleitt ekki gerðar nema á um hálfs árs fresti,“ segir Reynir.