„Ég fundaði með formönnum flokka í morgun auk þess sem þingflokksformenn funduðu. Formaður Samfylkingarinnar hefur lagt fram sáttatillögu í stjórnarskrármálinu sem verður tekin til athugunar á morgun,“ segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir forseti Alþingis en þinglok eru enn ekki í sjónmáli. „Ég ákvað að gefa mönnum út morgundaginn til að velta sáttatillögunni fyrir sér og mun kanna á morgun hvaða viðtökur tillagan hlýtur,“ segir Ásta Ragnheiður.
Aðspurð segist hún ekkert geta sagt fyrir um hvenær þing ljúki störfum sínum. „Ég mun meta það á morgun hver staðan er í framhaldinu og taka ákvörðun um framhald þingfunda.“
„Á morgun er sunnudagur og þá vona ég að flestir nýti tímann í að ræða óformlega saman,“ segir Ásta Ragnheiður. Aðspurð hvort þingfundir haldi áfram á mánudag segir hún það óljóst. „Það fer eftir því hvað kemur út úr samtölum morgundagsins, en ég held að það sé eindreginn vilji allra að ljúka þessu. Fyrst þarf að nást sátt um þau mál sem verða kláruð,“ segir Ásta Ragnheiður.
Hún segir ástandið ekki óvenjulegt. „Ég held að þetta sé bara gangur mála þegar verið er að ljúka þingi. Þá fer alltaf dálítill tími í að semja um málin,“ segir Ásta Ragnheiður.