„Fólk er með allskonar meiðsli. Duncan Slater frá Bretlandi er ekki með neina fætur, og Ivan Castro er blindur. Therese í bandaríska liðinu er þakin brunasárum eftir sjálfsmorðssprengju í Írak. Margo, önnur kona í liðinu varð fyrir heilaskaða þegar heimatilbúin sprengja sprakk við farartækið hennar og Tanner vantar annan fótinn fyrir neðan hné,“ segir Mark Wise, en hann er hluti af pólfarahópi Walking With the Wounded.
Undanfarinn hálfan mánuð hafa 18 hermenn frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada verið í þjálfun á Langjökli.
„Margir af Áströlunum voru skotnir í fótinn og einn þeirra fékk kúlu í hálsinn. Breska liðið stendur frekar illa, þau eru sex í liðinu með samtals sex fætur,“ segir Mark Wise og hlær. „Það er einn á mann.“ Bretarnir hrópa að honum í bakgrunni. Svartur húmor er greinilega auðkenni þessa hóps.
„Ég særðist 24. október 2009 í Kandahar-héraði í Afganistan, þá 24 ára. Ég er 27 í dag. Ég var yfirmaður í fótgönguliði bandaríkjahers og særðist þegar heimatilbúin sprengja (e. IED) sprakk við hliðina á mér. Þetta gerðist í skotbardaga þegar ég og félagi minn færðum okkur til, annarhvor okkar virkjaði sprengjuna með þessum afleiðingum,“ segir Mark Wise.
„Ég slasaðist meira og minna frá toppi til táar á vinstri hlið líkamans. Vinstra augað mitt er eiginlega gangslaust, báðar hljóðhimnurnar sprungu, beinin í andlitinu mölvuðust og það var gat í kinninni á mér. Ég varð líka fyrir miklum vefjaskemmdum á öxl og læri auk þess hálfur lófinn var tekinn af, þannig að ég er bara með þumal og vísifingur á vinstri hönd,“ segir Mark Wise. „Þetta er bara allur pakkinn.“
Og þú ætlar að ganga á suðurpólinn? „Já, já, fá mér léttan göngutúr þarna suðurfrá. Hermenn eru yfirleitt í mjög góðu formi og það hefur ekkert breyst þrátt fyrir þetta. Ég var mikill útivistarmaður áður og sá enga ástæðu til að hætta því,“ segir Wise. „Við förum í lok nóvember og verðum á gangi fram í miðjan desember.“
„Upplifunin á Íslandi hefur verið stórkostleg. Ég var varaður við að landið væri ótrúlega fallegt og það hefur alveg staðist. Ef þú horfir út um gluggann sérðu snævi þakin fjöll, græna akra og hesta og svo Grímsána (í Borgarfjarðarsveit) þar sem erum núna,“ segir Wise. „Þegar við komum upp á Langjökul sá ég náttúrufegurð sem ég hef aldrei upplifað áður. Þetta var ótrúlegt. Veðrið var líka mjög svipað því sem við megum búast við á suðurpólnum.“
Mark Wise er hluti af bandaríska liðinu, en lið frá Bretlandi og sameiginlegt lið Kanadamanna og Ástrala taka líka þátt. „Það er alltaf keppni í hernum, sérstaklega milli hermanna frá mismunandi löndum. Það gerir þetta skemmtilegra. Liðin eru samt mjög mismunandi saman sett með tilliti til hvernig við erum særð. Við grínumst mikið hvert í öðru með það,“ segir Wise.
„Andinn er ótrúlega góður hjá okkur. Við höfum öll lent í skelfilegum aðstæðum og að geta talað opinskátt um mjög persónulega hluti við einhvern sem skilur mann er ómetanlegt,“ segir Wise.
„Bataferlið eftir sprenginguna var mjög erfitt. Ég var með meðvitund allan tímann frá því að sprengjan sprakk og þangað til ég kom á hersjúkrahúsið í Kandahar. Þar sofnaði ég og vaknaði 12 dögum síðar á spítala í Washington D.C. Ég vissi að ég væri í slæmu ástandi en hafði ekki hugmynd um hversu slæmu. Báðir fæturnir voru bundnir niður í kjölfar skurðaðgerðar. Handleggirnir voru algjörlega fastir. Ég varð fyrir taugaskaða í öxlinni þannig að ég gat hvort eð er ekki lyft handleggnum. Ég gat ekki einu sinni ýtt á takkann til að kalla eftir hjúkrunarfræðingi eða til að auka á morfínið. Ég gat ekki borðað og fannst ég ekki geta neitt,“ segir Wise.
„Markmiðin sem maður setur sér stækka í hænuskrefum. Fyrsta markmiðið var að geta skipt um sjónvarpsstöð með fjarstýringunni. Næsta var að geta klórað mér í andlitinu. Markmið eins og að ganga á suðurpólinn byrja svona, eitt skref í einu. Þetta er líka svo mikið í hausnum á manni. Tilhugsunin að fara út í snjóauðn sem lítur alltaf eins út og ganga tíu tíma á dag í tveggja tíma syrpum er yfirþyrmandi. Það er erfitt að halda sér við efnið við þær aðstæður. Maður þarf líka ekki bara að passa upp á sjálfan sig, heldur hina í liðinu líka. Ivan, sem ég nefndi áðan, hefur til dæmis þurft á miklum stuðningi að halda. En það er hluti af þessu,“ segir Mark Wise.