Tölvunotkun eykur orðaforða barna

Tölvunotkun skilar íslenskum börnum meiri orðaforða en enskunám í fyrstu …
Tölvunotkun skilar íslenskum börnum meiri orðaforða en enskunám í fyrstu bekkjum grunnskólans samkvæmt nýrri íslenskri rannsókn. mbl.is/Sverrir

Sjónvarpsáhorf, tónlist og tölvunotkun skilar íslenskum börnum meiri orðaforða en enskunám í fyrstu bekkjum grunnskólans. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem Ásrún Jóhannsdóttir, doktorsnemi í ensku við Háskóla Íslands, kynnir á Hugvísindaþingi skólans í dag, laugardag.

Ásrún lagði könnun fyrir 400 nemendur í fjórða bekk í tólf grunnskólum á Íslandi. Markmiðið var að kanna orðaforða þeirra og viðhorf til ensku. Samkvæmt núgildandi aðalnámskrá grunnskóla hefst enskukennsla við upphaf fjórða bekkjar en þó er heimilt að hefja kennslu fyrr. Börnin sem tóku þátt í rannsókninni hófu ýmist nám í fyrsta, öðrum eða þriðja bekk og höfðu sum barnanna ekki enn hafið enskunám.

„Fræðin segja að eftir eitt ár í námi ættu nemendur að þekkja 350 orð að meðaltali og bæta við um 150 orðum eftir það,“ segir Ásrún. Meðalþekking barnanna reyndist vera 395 orð eftir tvo mánuði í fjórða bekk. Ekki var marktækur munur á nemendum sem hófu nám í fyrsta og þriðja bekk. „Þetta bendir til þess að þau þekki nokkuð mörg orð áður en nám í ensku hefst,“ segir Ásrún.

Að sögn Ásrúnar stóðu börn sem nota sjónvarp og tölvur sig betur á orðaforðaprófinu. „Þessar niðurstöður benda til þess að notkun þessara miðla gegnir stærra hlutverki en kennsla í skóla fyrstu fjögur árin,“ segir Ásrún.

„Mín túlkun er sú að ekki sé við hæfi að hefja enskukennslu fyrr en í þriðja bekk,“ segir Ásrún. Hún segir að í ljósi niðurstaðnanna, að orðaforði aukist ekki verulega milli þessara fyrstu ára í grunnskólanum, sé vert að velta upp þeirri spurningu hvort börn séu tilbúin að læra ensku meðan þau eru enn að ná skólahæfni í sínu fyrsta tungumáli.

Hér má finna dagskrá Hugvísindaþings.

Ásrún Jóhannsdóttir, doktorsnemi í ensku.
Ásrún Jóhannsdóttir, doktorsnemi í ensku. Ásrún Jóhannsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert