Það var sannkallaður norðurljósadans í kvöld, m.a. austan við Vík í Mýrdal líkt og sjá má á meðfylgjandi myndum. Veðurstofa Íslands greindi frá því fyrr í dag að möguleiki væri mikilli virkni norðurljósa, einkum framan af kvöldi, og sú spá virðist hafa gengið eftir.
Á Vísindavef Háskóla Íslands er fjallað um norðurljós. Þar segir að frá sólinni berist í sífellu svonefndur sólvindur sem sé straumur rafhlaðinna agna.
„Þegar vindurinn nálgast jörðina hrindir segulsvið jarðarinnar honum frá sér nema í kringum segulpólana. Þar sleppur eitthvað af ögnunum inn í segulsviðið.
Þegar eindirnar rekast á lofthjúp jarðar, í um 100-250 km hæð örvast sameindir og frumeindir í hjúpnum og þær senda frá sér sýnilegt ljós sem við köllum norður- eða suðurljós,“ segir á Vísindavef HÍ.