Óánægja innan Samfylkingarinnar

Árni Páll Árnason mun í dag halda áfram að kanna …
Árni Páll Árnason mun í dag halda áfram að kanna grundvöll fyrir sátt í stjórnarskrármálinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tveir af nefndarmönnum Samfylkingarinnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tóku ekki þátt í að afgreiða frumvarp Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar út úr nefndinni. Í stað þeirra voru aðrir þingmenn flokksins kallaðir að afgreiðslu málsins. Óánægja er innan flokksins vegna málsins.

Enn er algerlega óljóst hver verða afdrif stjórnarskrármálins á þingi og hvernig verður staðið að þinglokum.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hafði frumkvæði að því að reyna að leysa málið með því að leita eftir samkomulagi við stjórnarandstöðuna. Ekkert liggur fyrir hvort hann muni hafa erindi sem erfiða. Mikil óánægja er hins vegar í hans eigin flokki með hvernig málið hefur þróast.

Formenn Samfylkingarinnar, VG og Bjartrar framtíðar lögðu fram frumvarp um þá grein stjórnarskrárinnar sem fjallar um hvernig eigi að breyta stjórnarskránni. Tilgangurinn var að gefa þingmönnum lengri tíma til að vinna að stjórnarskrárbreytingum.

Eftir að frumvarpið var lagt fram sögðu Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og Lúðvík Geirsson, sig frá málinu, en Valgerður hefur á síðustu mánuðum lagt mikla vinnu á sig til að reyna að klára málið. Varamenn Samfylkingarinnar í nefndinni eru Magnús Orri Schram og Árni Páll Árnason. Magnús Orri hefur tekið að sér að vera framsögumaður nefndarinnar í málinu. Hann skrifar undir nefndarálitið ásamt Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Oddnýju G. Harðardóttur þingflokksformanni. Oddný er hins vegar ekki varamaður í nefndinni.

Lítið var rætt við stjórnarandstöðuna um stjórnarskrármálið á föstudaginn. Stjórnarandstæðingar segja að ástæðan fyrir því sé að svo mikið ósamkomulag sé í röðum stjórnarflokkanna um málið að þeir verði fyrst að reyna að stilla saman sína strengi áður er rætt er við fulltrúa annarra flokka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert