Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að nú sé hart spunnið um ágreining innan Samfylkingarinnar um stjórnarskrármálið. Hann segir að spuninn sé bæði rangur og ósanngjarn.
Hann segir í pistli sem hann skrifar á vef Pressunnar, að Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hafi sagt þjóð og þingi frá óþægilegum sannleika, þ.e. að ekki tækist að ljúka vinnu við endurskoðun stjórnarskrárinnar fyrir vorið.
„Nú er hart spunnið um ágreining innan Samfylkingarinnar um stjórnarskrármálið. Nýjum formanni er þar eignuð sú staða sem uppi er; að illa gangi að lenda málinu og tryggja þannig lúkningu heildarendurskoðunar stjórnarskrárinnar. Þessi spuni er bæður rangur og ósanngjarn,“ skrifar Björgvin.
Björgvin segir það vitleysu og rangfærslur að halda því fram að Árni Páll beri ábyrgð á því að ekki hafi náðst að ljúka vinnunni. Hann segir að Árni Páll hafi gengið fram fyrir skjöldu til að bjarga ferlinu heilu í höfn.
„Fyrir vikið situr hann undir svikabrigslum og spuna um óánægju með framgöngu sína innan þingflokks Samfylkingarinnar og við málið í heild sinni. Þetta er rangt. Auðvitað tökumst við á um framgang mála en Árni Páll nýtur fyllsta trausts og stuðnings okkar í þingflokknum. Enda enginn haldið öðru fram undir nafni og númeri,“ skrifar Björgvin.