Innanríkisráðherra segir að samningur fjármálaráðuneytisins og borgaryfirvalda um Reykjavíkurflugvöll verði ekki virkur fyrr en náðst hefur samkomulag við innanríkisráðuneytið. Það samkomulag sé ekki í höfn.
Þetta kemur fram í pistli sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skrifar á bloggsíðu sína sem nefnist „Reykjavíkurflugvöllur og almannahagsmunir“.
Ögmundur segist hafa beitt sér fyrir því frá haustinu 2010, þegar hann kom í samgönguráðuneytið, að fá lausn í flugvallarmálið.
„Frá mínum bæjardyrum snýst það um að fá skipulagsheimild frá Reykjavíkurborg til að reisa nýja flugstöð í stað þeirrar sem fyrir er og er löngu úr sér gengin. Jafnframt að fá vissu fyrir því að ekki verði tjaldað til einnar nætur og að fjármagn verði tryggt til framkvæmda. Tók ég þar upp þráðinn frá forverum mínum í embætti sem hafa verið sama sinnis og ég varðandi Reykjavíkurflugvöll, að ekki eigi að flytja hann eða leggja niður,“ skrifar Ögmundur.
Hann segir að ekkert hafi gengið í því að þoka málinu áfram árið 2010 þrátt fyrir að hann hafi sýnt góðan vilja. Sömu sögu sé að segja um árin 2011 og 2012.
„Málið var strand þrátt fyrir ítrekaða beiðni mína um að hraða málinu. Í vegi stóð m.a. að ekki hafði náðst samkomulag milli borgar og fjármálaráðuneytis um verð á landi og síðan hver framtíðaráform borgarinnar væru með Vatnsmýrina. Við þekktum vilja borgarinnar að flytja völlinn en spurningin var um tímasetningar og ýmsa aðra ófrágengna þætti, þar á meðal öryggisþætti. Fram til þessa hefur það verið skilningur allra aðila að ekki yrði gengið frá þessum málum nema með heildstæðri lausn. Ég stóð í þeirri trú.
Þegar borgin sýndi vilja til að taka upp þráðinn að nýju í byrjun þessa mánaðar fagnaði ég því og taldi mikilvægt að við settumst heildstætt yfir málið, endurmætum forsendur í ljósi þess tíma sem liðinn er frá því málin voru síðast rædd og freistuðum þess að ná samkomulagi. Það sem ég ekki vissi var að þá þegar hafði verið undirritaður samningur milli ríkis borgar! Þetta varð mér ekki ljóst fyrr en ég sá um þetta fréttir sl. fimmtudag. Samningurinn hafði hins vegar verið undirritaður í byrjun mánaðarins, hinn 1. mars, án þess að mér væri tilkynnt um það.
Samningur fjármálaráðuneytis og borgarinnar verður hins vegar ekki virkur fyrr en náðst hefur samkomulag við innanríkisráðuneytið. Það samkomulag er ekki í höfn,“ skrifar Ögmundur.
Hann fagnar umræðu um framtíð flugvallarins og segir að sú umræða komi allri þjóðinni við. Eðlilegt væri að spyrja hana alla um álit í þessu efni. Málið snýr að okkur öllum. Framtíð Reykjavíkurflugvallar snýst um hagsmuni samfélagsins alls.