„Vegna umræðu hér, og ég vil kalla málþóf, í mörgum málum að undanförnu þá tel ég mikilvægt að þjóðin sjái það svart á hvítu í dagskrá fundarins í dag hvaða mál það eru sem að sem leggjum kapp á að fáist afgreidd og hvaða mál það eru sem verið er að koma í veg fyrir með málþófi að komist hér til afgreiðslu.“
Þetta sagði Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í morgun í umræðum um störf þingsins og nefndi hann í því sambandi mál eins og um opinbera háskóla og breytingar á almennum hegningarlögum vegna kynferðisbrota gegn börnum innan fjölskyldna, niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði og náttúruvernd.
Fleiri stjórnarliðar tóku til máls á sömu nótum og sökuðu stjórnarandstöðuna um að koma ítrekað í veg fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir gætu komið málum sínum í gegnum þingið. Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sagði að stjórnarandstöðuþingmenn ættu ekki að vera hissa á að 41 mál væri á dagskrá þingsins í dag þegar þeir hefðu ítrekað tafið fyrir störfum þess.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar ítrekuðu fyrri óskir sínar um að ríkisstjórnin tilgreindi hvaða mál hún teldi brýnast að koma í gegn svo hægt væri að ræða það. Í því sambandi yrði að vera um raunhæft mat að ræða í ljósi þess að samkvæmt áætlun hefðu þinglok átt að vera fyrir helgi. Þá bentu þeir á að mörg ný mál hefðu verið að koma inn í þingið síðustu daga og ekki væri hægt að kenna stjórnarandstöðunni um það.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, vísaði ásökunum stjórnarliða um málþóf á bug en benti jafnframt á að nú væri svo komið í störfum Alþingis að það væri enginn tími fyrir slíkt. Þá sögðu stjórnarandstæðingar furðulegt að stjórnarliðar væru sífellt að kvarta undan því að stjórnarandstaðan stöðvaði mál í ljósi þess að þeir teldu sig njóta meirihlutastuðnings á þingi.
Þá kölluðu stjórnarandstæðingar eftir því að brýn mál sem enginn ágreiningur væri um yrði afgreitt í stað þess að þau væru sett aftar á dagskrána en umdeild mál og þannig komið í veg fyrir afgreiðslu þeirra. Umdeildu málin yrðu jafnframt lögð til hliðar. Meðal annars kom þetta fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar, varaformanns Framsóknarflokksins, sem reiddist mjög í ræðustól þegar hann benti á að fá mál væru á dagskránni vegna skuldamála heimilanna og þau væri öll neðarlega á henni.