Karlarnir halda uppi málþófi

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Svandís Svavarsdóttir, umhverfis-  og auðlindaráðherra, vekur athygli á því á bloggsíðu sinni að karlar hafi talað í 9 klukkustundir og 92% ræðutímans um frumvarp til nýrra náttúruverndarlaga. Bloggfærslan er undir fyrirsögninni „Karlaþófið mikla“. „Hér er sjálfsagt enn eitt merki þess að fjölgun kvenna á þingi myndi leiða til betri þingstarfa,“ skrifar Svandís.

Svandís skrifar að á þessum síðustu þingdögum kjörtímabilsins geri stjórnarandstaðan hvað hún geti til að koma í veg fyrir framgang sem flestra mála ríkisstjórnarinnar. „Virðist þar litlu gilda hvort raunverulegur ágreiningur sé um málin eða ekki – málþófi skal beitt á þau öll.

Undir lok síðustu viku var hálfum sólarhring varið í málþóf um frumvarp til nýrra náttúruverndarlaga. Tvöfaldur ræðutími var nýttur í málinu og margt sagt, án þess að innihaldið hafi endilega verið jafn mikið. Sérstaka athygli vekur hvernig ræðutími skiptist á milli kynjanna,“ skrifar Svandís og bætir við að konur hafi notað 8% ræðutímans, en karlar 92%. Karlar töluðu í níu klukkustundir, konur í rétt rúm þrjú kortér. Síðasta konan lauk máli sínu þegar klukkuna vantaði 20 mínútur í sex, karlarnir áttu þá eftir að tala hver við annan fram undir miðnætti.

„Svona skipting sést sjálfsagt oft á þinginu, þó hún sé óvenjuskýr í þessu máli. Hér er sjálfsagt enn eitt merki þess að fjölgun kvenna á þingi myndi leiða til betri þingstarfa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert