„Ég er sannfærður um að við munum á endanum ljúka viðræðunum og að samþykkt verði í þjóðaratkvæði að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu,“ segir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á fréttavef Bloomberg í dag. Hann segir ennfremur að þrátt fyrir að áhugi Íslendinga á því að ganga í ESB og taka upp evru hafi minnkað sé innganga í sambandið óhjákvæmileg. Þannig sé það hans skoðun að ekki verði öðruvísi mögulegt að afnema gjaldeyrishöftin.
„Frá mínum bæjardyrum séð er það ekki slæmt að viðræðurnar hafi tekið aðeins lengri tíma en við gerðum ráð fyrir þar sem að við, sem styðjum aðild að ESB, þurfum á því að halda að evrusvæðið verði sterkara og að sambandinu gangi betur. Og það er að gerast núna,“ segir Össur. Þá segir hann að þrátt fyrir að ný ríkisstjórn taki við völdum eftir kosningarnar í næsta mánuði sé ólíklegt að það breyti stefnunni í peningamálum.
„Allir íslensku stjórnmálaflokkarnir hafa sagt að þeir séu reiðubúnir að íhuga upptöku annars gjaldmiðils. Sumar tillögurnar sem settar hafa fram hafa verið nokkuð leyndardómsfullan eins og varðandi kanadíska dollarann. En ef horft er á málið af alvöru þá er aðeins ein lausn og það er að taka upp evru.“