Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson hefur sent nýjum forseta Kína, Xi Jinping, heillaóskir frá sér og íslensku þjóðinni. Í kveðjunni minnist forseti Íslands funda þeirra á undanförnum árum þar sem fram hefði komið eindreginn stuðningur Xi Jinping við aukna samvinnu Íslands og Kína.
Í þeim efnum væru lagning hitaveitna í kínverskum borgum og rannsóknir vísindamanna á bráðnun íss á Norðurslóðum meðal brýnna verkefna. Áformin um sameiginlegar rannsóknir á norðurljósum og sigling Snædrekans milli Shanghæ og Íslands nálægt Norðurpólnum á liðnu ári væru og vitnisburður um þessa þróun. Íslenskir jöklafræðingar hefðu stuðlað að rannsóknum á Himalajasvæðinu, m.a. með ráðstefnu sem haldin var í Háskóla Íslands árið 2011.
Forseti Íslands minnti einnig á heimsóknir kínverskra ráðamanna til Íslands og viðræður um fríverslunarsamning sem yrði væntanlega hinn fyrsti sem Kínverjar gerðu við Evrópuríki.
Íslendingar mætu mikils þann vinarhug sem komið hefði fram hjá Xi Jinping og öðrum ráðamönnum Kínverja á undanförnum árum.