Öngþveiti framundan á Þingvöllum

Jeppar, rútur og fólksbílar voru í einni kös á stæðinu …
Jeppar, rútur og fólksbílar voru í einni kös á stæðinu við Hakið um helgina. Ljósmynd/Ólafur Örn Haraldsson

Örtröðin á Þingvöllum hefur undanfarna daga verið líkt og hásumar sé. Bílastæðið við Hakið, þaðan sem útsýni er yfir vellina og Almannagjá, annar illa umferðarþunganum á fjölmennustu dögunum, ríkir þá hálfgert öngþveiti og í fyrrasumar var tvisvar bakkað á gangandi ferðamenn þar.

„Þingvellir eru náttúrulega slíkur staður að það varðar sóma þjóðarinnar að hafa þar allt myndarlegt og gott. Fólk kemur með miklar væntingar á þennan nafntogaða stað, og þá er þar ekkert annað en bílakássa,“ segir Ólafur Örn Haraldsson þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. Ekki hefur fengist fjármagn til að stækka bílaplanið og bæta aðstöðuna á Hakinu eins og gerðar hafa verið áætlanir um.

Milljón manns um Þingvelli í fyrra

Áætlað er að um 80% erlendra ferðamanna sem til Íslands koma leggi leið sína á Þingvelli. Um 500 þúsund manns heimsóttu Hakið á Þingvöllum á síðasta ári og um ein milljón fór um þjóðgarðinn þegar gegnum umferð er talin. Starfsmenn þjóðgarðarins telja að þar verði algjört öngþveiti í sumar, þegar ferðamannastraumurinn verður meiri en nokkru sinni fyrr gangi spár eftir.

Þótt enn sé hávetur hefur straumurinn verið stríður á Þingvelli undanfarið, jafnt á nóttu sem degi því margir fara þangað líka til að skoða norðurljósin og stjörnuhimininn. Ólafur Örn segir að við Hakið standi stundum 15-20 rútur, fjöldinn allur af stórum jeppum auk fólksbíla. Bílaplanið fyllist svo lagt er meðfram afleggjaranum langleiðina út á þjóðveg.

Sjúkrabílar komast ekki að

„Í sumar verður þetta næstum því óviðráðanlegt,“ segir Ólafur Örn. Hann bendir á að í fyrra hafi í tvígang verið bakkað á gangandi fólk á bílastæðinu, þar af hafi maður lent undir bílnum í annað skiptið en það slapp sem betur fer án alvarlegra meiðsla.

Þá gerðist það síðasta sumar að ferðakona fékk aðsvif þannig að kallað var á sjúkrabíl en þegar á reyndi komst hann ekki inn á svæðið fyrir öngþveiti. Konan dó, en að ekki skal þó fullyrt að unnt hefði verið að bjarga henni. Ólafur Örn segir þó alveg ljós að um öryggisatriði sé að ræða.

Umsókn um fjárveitingu hafnað

Stjórnvöld hafa ákveðið að láta 500 milljónir króna renna á ári næstu þrjú árin í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, og sótti þjóðgarðurinn á Þingvöllum um fjárveitingu til framkvæmda í Hakinu í vetur. Þeirri umsókn var hafnað. 

„Ég hef lagt áherslu á að koma upp aðstöðu sem myndi skila tekjum svo þetta væru arðbærar fjárfestingar,“ segir Ólafur Örn, sem vonaðist eftir allt að 160 milljóna króna fjárveitingu til að stækka bílastæðið og bæta aðstöðuna, m.a. með veitingasölu í fræðslumiðstöðinni. Þess í stað var Þingvöllum heitið 20 milljóna króna framlag til smáframkvæmda, með skilyrði um 20 milljóna króna mótframlag frá þjóðgarðinum.

Mikil vonbrigði og undrun

Þá upphæð segist Ólafur Örn ekki eiga til og er hann undrandi yfir niðurstöðunni. „Ég bara skil ekki, þegar settur er upp sjóður til eflingar ferðamannastaða, að Þingvellir séu skildir eftir í slíkri nauð sem hér er á Almannagjárbarmi þar sem koma heilu farmarnir af skemmtiferðaskipafólki,“ segir Ólafur Örn.

„Þingvellir eru ekki bara eitthvað lítið ferðafyrirtæki, þetta er helgistaður þjóðarinnar og einn aðalmóttökustaður ferðamanna og sá fyrsti sem þeir koma á. Þannig að þetta voru mikil vonbrigði.“

Rútum og jeppum er lagt í vegkantinn meðfram afleggjaranum þegar …
Rútum og jeppum er lagt í vegkantinn meðfram afleggjaranum þegar bílastæðið er fullt. Á sumardögum nær röðin langt út að þjóðvegi. Ljósmynd/Ólafur Örn Haraldsson
Ferðamenn flykkjast á brún Almannagjár við Hakið þar sem fallegt …
Ferðamenn flykkjast á brún Almannagjár við Hakið þar sem fallegt útsýni er yfir Þingvelli. Ljósmynd/Ólafur Örn Haraldsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert