Samkomulag á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar um kaup borgarinnar á um 112 þúsund fermetra svæði við Skerjafjörð við Reykjavíkurflugvöll var undirritað síðastliðinn fimmtudag án vitneskju Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra. Þetta staðfesti ráðherrann á Alþingi í morgun í svari við fyrirspurn frá Birgi Ármannssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, en um er að ræða svæði sem í dag svonefnda litlu flugbraut flugvallarins.
Ögmundur sagði að lengi hafi staðið til að samkomulag yrði gert um sölu á umræddu landi og ennfremur að litla flugbrautin yrði aflögð. Að því leyti hefði verið staðið með eðlilegum hætti að málinu. Hann tók hins vegar undir með Birgi að betra hefði verið að gengið hefði verið frá lausum endum vegna málsins áður en slíkt samkomulag hefði verið gert eins og til að mynda hvenær flugbrautin yrði aflögð.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, spurði Ögmund einnig út í samkomulagið sem undirritað var af Katrínu Júlíusdóttur, fjármála- og efnahagsráðherra, og Degi B. Eggertssyni, formanni borgarráðs Reykjavíkurborgar. Innti hann ráðherrann svara við því hvort formleg ákvörðun lægi fyrir um að afleggja litlu flugbrautina. Minnti hann á að hún væri ekki ónauðsynleg og gegndi þannig ákveðnu öryggishlutverki.
Ögmundur lagði áherslu á að slík ákvörðun væri háð samþykkti innanríkisráðuneytisins. Ráðherrann sagði ennfremur að samkomulagið væri misráðið á meðan margir hnútar hefðu ekki verið hnýttir og að hann hafi gagnrýnt það.