Stjórnarskrármálið tekið til umræðu

Önnur umræða um frumvarp formanna Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Bjartrar framtíðar um stjórnskipunarlög hófst á Alþingi eftir hádegið. Áður viðruðu þingmenn Sjálfstæðisflokks áhyggjur sínar af breytingartillögu Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Hreyfingarinnar.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði afgreiðslu þingsins á lögum um neytendalán í morgun sýna að hægt sé að koma ýmsu í verk ef rétt sé á málum haldið. En það sé einnig hægt að stefna þingstörfunum í óefni með því að taka á dagskrá mál sem hvað mestur ágreiningur er um.

Hann sagði að forseti ætti að kanna að gera breytingar á dagskránni.

Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmenn Sjálfstæðisflokks, gerðu öll breytingartillögu Margrétar að umtalsefni sínu. Ólöf fór fram á það við forseta að hann úrskurði um það hvort tillaga Margrétar samræmist þingsköpum. Og Pétur fór fram á sömu upplýsingar og spurði hvort hægt sé að samþykkja breytingartillögu sem þessa, heila stjórnarskrá án lögskýringagagna.

Fjórtán þingmenn eru á mælendaskrá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert