„Þetta er mjög spennandi fyrir mig og gefur mér ákveðin tækifæri,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sem ráðinn hefur verið háskólarektor á Bifröst. Hann ætlar að flytja úr Reykjavík í Borgarfjörðinn.
Vilhjálmur segir að röð af tilviljunum og skjótum ákvörðunum hafi ráðið því að hann ákvað að taka boði um að gerast rektor á Bifröst.
„Þegar ég varð framkvæmdastjóri SA árið 2006 var ég ekki að reikna með því að ég myndi ljúka mínum starfsferli hér,“ segir Vilhjálmur.
„Ég er doktor í hagfræði en hef aldrei haft tækifæri til að vera í akademíunni. Núna fær ég tækifæri til að helga mig henni. Mig langar mikið til að leggja áherslu á rannsóknir í þágu atvinnulífsins og almennings i landinu.“
Vilhjálmur kenndi í háskóla samhliða námi, en hann nam hagfræði í Bandaríkjunum. Hann kenndi líka í Háskóla Íslands áður en hann settist á Alþingi. Hann hefur tengst háskólunum í landinu í gegnum starfsferil sinn. Vilhjálmur var í mörg ár framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands og tók þá virkan þátt í að setja Háskólann í Reykjavík á stofn og kom að uppbyggingu hans á fyrstu árum skólans. Vilhjálmur hefur komið að uppbyggingu Háskólans á Hólum og hefur einnig tengst Háskólanum á Bifröst. Samtök atvinnulífsins hafa verið meðal helstu bakhjarla skólans og Vilhjálmur hefur verið formaður akademískrar dómnefndar á Bifröst frá árinu 2004.
Miðað er við að starfslok Vilhjálms hjá SA verði 1. júlí, en þá tekur hann við sem rektor. Vilhjálmur segir að ef búið verði að ráða framkvæmdastjóra SA fyrr þá taki hann við rekstri skrifstofunnar og hann verði þá í ráðgjafahlutverki til 1. júlí.
Vilhjálmur og Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir, kona hans, ætla að flytja lögheimili sitt upp að Bifröst. Hann segist vera spenntur fyrir því að flytja út á land. Þess má geta að Vilhjálmur var landsbyggðarþingmaður í 12 ár.
Vilhjálmur segist örugglega eiga eftir að sakna þeirra verkefna sem hann hafi unnið fyrir Samtök atvinnulífsins. „Þetta er búið að vera mjög áhugaverður og skemmtilegur kafli í mínu lífi, þessi kafli hjá Samtökum atvinnulífsins. Ég er mjög þakklátur öllum sem ég hef unnið með og hef þurft að hafa samskipti við á þessum tíma, innan samtakanna eða utan þeirra. Það hefur verið mikill heiður að fá að vinna með þessu fólki. Ég er hins vegar ekki að slíta tengslin við SA. Ég kem til með að hafa mikið samstarf við Samtök atvinnulífsins sem rektor.“