Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag að „tundurskeyti“ Margrétar Tryggvadóttur hefði breytt stöðu stjórnarskrármálsins og sett viðræður formanna flokkanna um að lenda málinu á byrjunarreit.
Magnús Orri átti þar við breytingartillögu Margrétar við málamiðlunartillögu formanna Samfylkingar, VG og Bjartar framtíðar um að stjórnarskrártillögur stjórnlagaráðs verði afgreiddar á þessu þingi.
Magnús Orri sagði að tveir af formönnunum þremur hefðu lýst vilja til að afgreiða tillögu um auðlindaákvæði og ákvæði um beint lýðræði á þessu þingi, en ekki gert beina tillögu um þetta meðan verið væri að kanna vilja annarra flokka til þessara tveggja atriða. Hann sagði að sáttaviðræður forystumanna flokkanna um auðlindaákvæðið hefðu verið hafnar. Þegar Margrét hefði skotið sínu „tundurskeyti“ hefði málið flækst og í raun verið sett á byrjunarreit.
Magnús Orri gagnrýndi einnig stjórnarandstöðuna fyrir að vera treg til að leggja fram tillögur um orðalagsbreytingar á þeim atriðum sem gæti náðst samstaða um á Alþingi og minnti á að sjálfstæðismenn hefðu ekki enn lagt fram eigin stjórnarskrártillögur, eins og þeir hefðu þó boðað.