1. janúar 2013 voru 25.926 innflytjendur á Íslandi eða 8,1% mannfjöldans. Það er lítilsháttar fjölgun frá því í fyrra þegar þeir voru 8,0% landsmanna (25.442). Annarri kynslóð innflytjenda fjölgaði nokkuð á milli ára, voru 2.876 í fyrra en 3.204 nú. Samanlagt var fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 9,1% af mannfjöldanum, en það er einnig lítilsháttar fjölgun frá því í fyrra þegar hlutfallið var 8,9%. Einstaklingum með erlendan bakgrunn, öðrum en innflytjendum, fjölgaði einnig lítillega milli ára, voru 6,2% mannfjöldans í fyrra en 6,4% nú.
Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar.
Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra sem einnig eru fæddir erlendis, svo og báðir afar hans og báðar ömmur. Önnur kynslóð innflytjenda eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur. Fólk er talið hafa erlendan bakgrunn ef annað foreldrið er erlent, segir í frétt Hagstofunnar.
Pólverjar fjölmennastir innflytjenda
Eins og síðustu ár eru Pólverjar langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi. Hinn 1. janúar síðastliðinn var 9.371 einstaklingur upprunninn frá Póllandi eða 36,1% allra innflytjenda. Pólskir karlar voru 39,8% allra karlkyns innflytjenda eða 4.909 af 12.339. Pólskar konur voru 32,8% kvenkyns innflytjenda. Næstfjölmennasti hópur innflytjenda er frá Litháen, 5,4%, en 5,3% frá Filippseyjum.
Á Vestfjörðum og Suðurnesjum eru yfir 12% mannfjöldans innflytjendur
1. janúar bjuggu 19.486 fyrstu og annarrar kynslóðar innflytjendur á höfuðborgarsvæðinu, 66,9% allra innflytjenda á landinu. Hlutfall innflytjenda af mannfjölda var hæst á Vestfjörðum, en þar eru 12,7% innflytjendur af fyrstu eða annarri kynslóð. Næsthæst er hlutfallið á Suðurnesjum þar sem 12,3% mannfjöldans eru innflytjendur eða börn þeirra. Lægst er hlutfallið á Norðurlandi vestra, en þar eru um 4,3% mannfjöldans innflytjendur eða börn þeirra.
413 einstaklingar fengu íslenskt ríkisfang árið 2012
Í fyrra fengu 413 einstaklingar íslenskan ríkisborgararétt en 370 árið 2011. Fjölgaði því einstaklingum sem fengu íslenskt ríkisfang á milli ára í fyrsta sinn frá árinu 2008. Árið 1991 fengu fleiri karlar en konur íslenskt ríkisfang, en á hverju ári eftir það hafa konur verið í meirihluta nýrra íslenskra ríkisborgara. Svo var og í fyrra þegar 246 konur fengu íslenskan ríkisborgararétt en 167 karlar.