Sérstakur saksóknari hefur ákært níu manns vegna aðildar að umfangsmikillar markaðsmisnotkun Kaupþings banka með hlutabréf í sjálfum sér fyrir bankahrunið samkvæmt heimildum mbl.is. Um er að ræða gríðarlega stórt mál á heimsvísu og ennfremur umfangsmesta mál sem embætti sérstaks saksóknara hafi sent frá sér.
Hinum ákærðu var birt stefna í gær en á meðal þeirra eru Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri bankans, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi. Hinir sem ákærðir eru í málinu eru allir fyrrverandi starfsmenn bankans.
Heimildir mbl.is herma að um sé að ræða fimm mál sem snúa að meintri markaðsmisnotkun í tengslum við Kaupþing sem hafi verið sameinuð í einni ákæru.
Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að meðal annars sé ákært vegna kaupa bankans á 29% í honum sjálfum á árunum 2005-2008 sem sérstakur saksóknari telji að hafi þjónað þeim tilgangi að halda uppi verði bréfa í bankanum með vitund og vilja yfirstjórnenda hans.