2013 verður þjóðinni nokkuð þungt

Árið 2014 er þó gert ráð fyrir að landið fari …
Árið 2014 er þó gert ráð fyrir að landið fari heldur að rísa og enn frekar árið 2015. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í endurskoðaðri hagspá 2013-2015 sem hagdeild ASÍ sendi frá sér í dag má sjá að árið 2013 verður þjóðinni nokkuð þungt. Efnahagsbatinn er hægur, hagvöxtur verður aðeins 1,9%, atvinnuleysi enn mikið, gengi krónunnar helst veikt og verðbólga há. Árið 2014 er þó gert ráð fyrir að landið fari heldur að rísa og enn frekar árið 2015.

Spáin byggir á sömu forsendum og spá hagdeildar frá því í október sl. fyrir utan að nú er gert ráð fyrir að framkvæmdir við byggingu kísilvers á Bakka hefjist á næsta ári. Áfram er gert ráð fyrir að framkvæmdir við álverið í Helguvík ásamt tengdum orkuframkvæmdum fari á fullt skrið á árinu, ráðist verði í endurbætur á álverinu á Grundartanga og byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði. Auk þess er gert ráð fyrir byggingu nýs spítala og framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng. Nokkur seinkun hefur orðið á framkvæmdum við álverið í Straumsvík en áfram er gert ráð fyrir að framleiðsla hefjist í endurbættri verksmiðju á undir lok næsta ári.

Spáin er háð töluverði óvissu um þróun efnahagsmála, bæði hérlendis og á alþjóðavísu. Gangi forsendur um fjárfestingar ekki eftir mun hagvöxtur verða umtalsvert minni en hér er gert ráð fyrir.

Hagur heimilanna vænkast

Kaupmáttur heimilanna hefur vaxið undanfarin ár og stutt við hóflegan vöxt einkaneyslunnar. Þrátt fyrir batnandi stöðu á vinnumarkaði, lengri vinnutíma og launahækkanir mun kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna dragast saman á þessu ári og því næsta. Skýringin er að sértækum aðgerðum til stuðnings skuldugum heimilum lýkur að mestu á árinu auk þess sem mikil verðbólga rýrir kaupmátt ráðstöfunartekna. Þetta endurspeglast í hóflegum vexti einkaneyslunnar allan spátímann.

Hagdeild spáir því að einkaneysla aukist um 2% í ár, 1,4% á næsta ári og 2,6% árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert