Á annað hundrað íbúar úr Grafarholti og Úlfarsárdal eru saman komnir á íbúafundi í Sæmundarskóla. Á fundinum er ætlunin að fara yfir fyrirhugaða uppbyggingu í Úlfarsárdal en borgaryfirvöld samþykktu á síðasta ári að leggja á fjórða milljarð króna til uppbyggingar í hverfinu.
Jón Gnarr, borgarstjóri, sagði í ávarpi sínu í upphafi fundar að til stæði að byggja samþættan leik- og grunnskóla ásamt bókasafni, íþróttahúsi og sundlaug, bæði inni og útisundlaug. Munu mannvirkin verða tengd saman og þjóna þeim 800 íbúðum sem fyrirhugað er að byggja í hverfinu auk 300 íbúða sem til stendur að deiliskipuleggja til viðbótar.
Björn Axelsson, skipulagsfulltrúi í Reykjavík mun kynna drög að endurskoðun skipulags á svæðinu, Fulltrúar Íþróttafélagsins Fram munu kynna hugmyndir um starfsemi félagsins, fulltrúi Íbúasamtaka Úlfarsárdals ávarpa fundinn sem og fulltrúi Íbúasamtaka Grafarholts.
Þá mun Pálína Magnúsdóttir, borgarbókavörður og Guðrún Dís Jónatansdóttir, framkvæmdastjóri Gerðubergs, fara yfir samlegðaráhrif skóla, íþrótta og menningarmannvirkja. Loks mun Rúnar Gunnarsson á skrifstofu skipulags, byggðar og borgarhönnunar fara yfir tímaáætlun undirbúnings og framkvæmda í Úlfarsárdal. Að lokum verða umræður.