Ekki greitt krónu í tekjuskatt í 10 ár

Álver Norðuráls að Grundartanga
Álver Norðuráls að Grundartanga mbl.is/Árni Sæberg

Tvö alþjóðleg stórfyrirtæki hér á landi, Alcoa og Norðurál, borga litla sem enga tekjuskatta hér á landi, þar sem þau skulda systurfélögum sínum erlendis hundruð milljóna króna. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.

Alcoa á Íslandi hefur sem dæmi ekki greitt krónu í tekjuskatt síðan árið 2003, að því er fram kom í Kastljósi. Á þeim 16 árum sem álver Norðuráls á Grundartanga hefur verið starfrækt hefur tekjuskattur aðeins verið greiddur af starfseminni fyrir 3 rekstrarár.

Fram kom í Kastljósinu að þetta sé þekkt erlendis og þar hafi víða verið girt fyrir slíkt. Íslenskum stjórnvöldum hafi verið bent á að þessu þurfi að breyta hér, þar á meðal af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þær breytingar hafi þó enn ekki verið lagðar til.

Skulda systurfyrirtækjum erlendis

Fyrirkomulagið sem gerir fyrirtækjunum kleift að komast undan tekjuskatti hér er með þessum hætti eftir því sem fram kemur á vef Rúv:

Alcoa og Norðurál eru alþjóðleg fyrirtæki með rekstur hér á landi, þar sem tekjur og hagnaður verða til. Eignarhaldið er hins vegar flókið, en fer í gegnum systurfélög í Luxembourg í tilviki Alcoa og Delaware í Bandaríkjunum í tilviki Norðuráls og þaðan í móðurfélögin.

Fyrirtækin hér á landi eru fjármögnuð í gegnum þessi systurfyrirtæki, og skulda þeim hundruð milljarða króna, og borga hundruð milljóna í vaxtakostnað af þessum lánum. Sá kostnaður kemur til frádráttar tekjum og þar af leiðandi þeim sköttum sem lagðir eru á þessi fyrirtæki hér á landi.

Nánar í Kastljósi

Viðbót kl. 22:53: Forsvarsmenn Norðuráls andmæla því sem fram kemur í frétt Kastljóss í kvöld og segjast vera í hópi þeirra fyrirækja sem greiði hvað hæst opinber gjöld hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka