Ekkert samkomulag hefur enn náðst um framhald þingstarfa eða þinglok, en formenn flokkanna funduðu áfram í dag og reyndu að ná lendingu í málinu. Þingfundur hefur ekki verið boðaður á Alþingi.
Formenn flokkanna funduðu með Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur forseta Alþingis í gærkvöldi og áfram í dag til að ná samkomulagi um þinglok og var ákveðið að boða ekki til þingfundar fyrr en niðurstaða lægi fyrir. Hún virðist enn ekki í sjónmáli því fundum mun lokið í dag án þess að sátt hafi náðst.
Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, staðan nú sé ólík þeirri sem vanalega er uppi þegar verið er að ljúka þingstörfum á vorin, að því leyti að nú sé stjórnarskráin undir.
„Það vilja auðvitað allir vanda sig og gera vel og menn hafa mismunandi skoðanir á því hver staða þessa máls er og hvað er hægt að gera. Vandinn liggur fyrst og fremst þar, öll hin málin sem út af standa er eitthvað sem við erum vön að fást við og getum leyst um leið og er búið að finna lausn á þessu stóra máli, sem er sjálf stjórnarskráin.“
Illugi segir að þegar sjálf grundvallarlögin séu undir sé ekki við því að búast að samið sé um slíkt með sama hætti og önnur mál þegar þingmenn eru með of mörg mál undir og þurfa að velja og hafna til að finna leið til að ljúka þingstörfum. „Þegar undir er sjálf stjórnarskráin gilda alveg sérstök lögmál um það og það er það sem gerir þessa stöðu svo flókna.“