Erfitt að horfa framan í reitt fólk

Jón Gnarr, borgarstjóri, á fundinum í kvöld í Sæmundarskóla í …
Jón Gnarr, borgarstjóri, á fundinum í kvöld í Sæmundarskóla í Grafarholti. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Hrunið er staðreynd sem við verðum að sætta okkur við. Það varð hérna hrun og þetta hrun hefur haft þau áhrif að fyrir utan að setja gríðarlegt álag á allt innra kerfi borgarinnar og starfsfólk þá hefur dregið út tekjum borgarinnar,“ sagði Jón Gnarr í síðari ræðu sinni á íbúafundi í Sæmundarskóla í Grafarholti í kvöld þar sem áform um uppbyggingu þjónustu í Úlfarsárdal voru kynnt. Vel á annað hundrað íbúar mættu til fundarins.

Sjö milljörðum minna úr að spila

„Við höfum í dag úr um það bil sjö milljörðum minna að spila en við höfðum árið 2008. Það hefur gert að verkum að við höfum þarft að fara í allskyns aðgerðir og bæði starfsfólk og stjórnmálamenn í borginni lagt á sig gríðarlega mikla vinnu við að reyna að leysa úr þessum vanda sem farsælast. Mér finnst oft, og hefur stundum dreymt það, að þetta sé eins og risa risa stórt púsluspil og alltaf að koma betri og betri mynd á það,“ sagði Jón.

„Höfum staðið í mörgum erfiðum málum“

„Ég skil ákaflega vel og ég er búinn að sitja marga fundi og margir reiðir og það er ekkert tilhlökkunarefni að mæta á fundi þar sem maður er að fara að horfa framan í fullt af fólki sem er ofsalega reitt af því að maður tekur ábyrgð á því sem hefur verið og mörg þung orð sem hafa fallið. Ég skil það gríðarlega vel og þessi vanmáttur sem maður upplifir af því að maður hefur drauma og væntingar sem maður sér ekki rætast. Við höfum staðið í mörgum erfiðum málum. Sameiningar grunn- og leikskóla sem var gríðarlega erfitt,“ sagði borgarstjóri í ræðu sinni.

Jón minntist á brunareiti víða sem hafi staðið eftir hrun og að mikilli vinnu hafi verið eytt í þá. Hann nefndi Orkuveitu Reykjavíkur og verkefni tengd henni og verkefni tengd tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu.

Tekist á við atvinnuleysi og útigangsfólk

„Síðan höfum við verið að takast á við atvinnuleysi, útigangsfólk og komið að byggingu nýs landspítala svo það er að gríðarlega mörgu að hyggja. Mér finnst allir hafa unnið að heilindum og metnaði. Stjórnmálamenn í borginni úr öllum flokkum, meirihluta og minnihluta, eru að leiða okkur sem farsælast í gegnum þessa erfiðu tíma. Við stöndum vissulega á erfiðum tímum og efnahagsástandið á Íslandi og í öllum heiminum einkennist af mikilli óvissu,“ sagði Jón.

Jón gerði umræðu um miðborg Reykjavíkur að umtalsefni, en fólk gagnrýndi nokkuð á fundinum að miklum fjármunum yrði varið þar á meðan lítið yrði gert á næstunni í Úlfarsárdal. Í því samhengi voru framkvæmdir við Sundhöll Reykjavíkur nefndar: „Varðandi miðbæinn - maður heyri þetta oft að það sé óþarflega mikil áhersla lögð þar. Ég er því ekki sammála mér finnst athyglin dreifast nokkuð jafnt yfir borgina en það eru ákveðin tækifæri sem við höfum í aukinni ferðaþjónustu. Það er áhætta í því líka og við þurfum að vanda mjög vel til verka þar. Nú er það þannig að ferðamennska til Íslands og Reykjavíkur hefur aukist gríðarlega mikið.“

„Njótum öll góðs af því“

„Við fáum stærsta hluta gjaldeyristekna okkar af ferðamönnum. Njótum öll góðs af því. Þetta snýst um forgangsröðum fjármuna - það er að segja að við reynum að ráðstafa fjármunum eins og maður telur skynsamast,“ sagði Jón.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert