Hegðunarvandamál aukast í skólum

Börn með hegðunarfrávik og geðraskanir reynast skólum oft erfið. Á …
Börn með hegðunarfrávik og geðraskanir reynast skólum oft erfið. Á sama hátt má spyrja hvort almennur grunnskóli sé besta lausnin fyrir þennan hóp barna. Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Við erum með einstaklinga með alls konar raskanir, geðsjúkdóma, mikla erfiðleika og ýmsar hamlanir sem geta valdið miklum vandræðum í samskiptum. Á meðan verið er að sinna þeim, þá gefur auga leið að það er ekki verið að sinna öðrum nemendum,“ segir Guðbjörg Ragnarsdóttir, varaformaður Félags grunnskólakennara. „Sum þeirra barna sem eiga í erfiðleikum í almennum grunnskólum ættu líklega frekar að vera í sérskólum.“

Greint var frá því í Fréttablaðinu í dag að 11 ára gamall drengur hefði ekki fengið aðstoð í skóla fyrr en hann beitti skólafélaga sinn alvarlegu ofbeldi. Þar var rætt við móður drengsins sem segir að „eitthvað alvarlegt“ þurfi að gerast til þess að brugðist sé við, en sonur hennar er greindur með ofvirkni, athyglisbrest, mótþróaþrjóskuröskun og kvíðaröskun. 

„Ég þekki ekki til þessa einstaka máls og get ekki tjáð mig um það,“ segir Guðbjörg. „En ég get tjáð mig almennt um ástandið í grunnskólunum. samfélagsbreytingar á undanförnum árum hafa meðal annars skilað sér á þann hátt að það eru meiri hegðunarvandkvæði í skólunum en áður var og þegar mikill tími fer í að bregðast við því, þá bitnar það á öðru. Sparnaðurinn í skólakerfinu gerir það að verkum að það er ekki hægt að skapa svigrúm til þeirrar vinnu sem þarf í þessum málum, eða fá þann mannskap sem þarf.“

Guðbjörg segir að gerðar hafi verið ýmsar rannsóknir á undanförnum árum sem sýni fjölgun hegðunarvandamála á undanförnum árum.

Bannað að segja bannað

„Þetta eru þjóðfélagslegar breytingar, sem hafa skilað sér í þessu. Það er ekki verið að segja að börn séu óþekk í dag, en hafi ekki verið það í gamla daga. En það eru aðrar kröfur um kurteisi og hvað þykir við hæfi. En þetta er alls ekki svart og hvítt og svo má ekki gleyma því að í dag er talað um vandamál sem var þagað yfir áður fyrr.“

Guðbjörg segir grunnskólana beita ýmsum ráðum til þess að fást við þessa þróun. „Sumir eru t.d. með agamótunarkerfi þar sem ekki má segja „Nei“, „hættu“ eða „bannað“ þannig að það er svo margt sem er inni í þessari mynd.“

Ofbeldismál í skólum eru sjaldan kærð

Engar tölur eru til um hversu margir grunnskólanemendur verði fyrir alvarlegum líkamsárásum af hendi annarra nemenda. Að sögn Guðbjargar rata slík mál sjaldan til lögreglu, fólk veigar sér við því þar sem um börn sé að ræða og allur gangur sé á því hvernig skólar vinna með mál sem þessi. 

„Þau geta verið býsna alvarleg. Við höfum dæmi um að 2-3 fullorðnir þurfi að grípa inn í ofbeldisfullar aðstæður á milli nemenda, en valdi þeim ekki. Slíkar aðstæður eru auðvitað bæði óæskilegar fyrir þann sem beitir ofbeldinu og þann sem verður fyrir því.“

Guðbjörg Ragnarsdóttir, varaformaður Félags grunnskólakennara.
Guðbjörg Ragnarsdóttir, varaformaður Félags grunnskólakennara. www.ki.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert