„Frjálshyggjufélagið lýsir yfir miklum vonbrigðum með að gjaldeyrishöftin hafi verið fest í lög um ókomna framtíð. Höftin færa stjórnmála- og embættismönnum mikil völd yfir öllum viðskiptum landsmanna. Þau færa ákvörðunarvaldið frá þeim sem stunda viðskipti til þeirra sem vilja hafa af þeim afskipti.“ Þetta segir í ályktun frá félaginu í kvöld.
Þar segir einnig: „Þau stífla hagkerfið, drepa fyrirtæki, leiða til rangrar verðlagningar á eignum og varningi, falsa alla hagvísa sem menn nota til að búa sig undir framtíðina og loka hagkerfi landsins af frá umheiminum. Þá fækka þau fjárfestingarkostum og gera áhættudreifingu erfiðari ásamt því að auka líkurnar á bólumyndun í hagkerfinu.“
Í ályktuninni segir að landsmönnum hafi í upphafi verið sagt að höftin yrðu tímabundin en að þeim sem þekki til ríkisvaldsins láti sér ekki koma á óvart þó svo að þau fyrirheit hafi verið svikin.
„Hitt er verra að stjórnmálamenn hafi blekkt almenning með ítrekuðum yfirlýsingum um að höftin yrðu afnumin. Marga áratugi tók að afnema höftin á fyrri hluta 20. aldar og ef stjórnmálamenn eru ekki beittir miklum þrýstingi er hætt við að sú saga endurtaki sig. Hin fyrri höft héldu Íslendingum í umhverfi fátæktar og opinberrar spillingar um langa hríð. Höftin sem núna eru bundin um hið íslenska hagkerfi og samfélag hafa óumflýjanlega sömu áhrif,“ segir í ályktunni og jafnframt: „Í vor verður kosið til Alþingis. Mikilvægt er að á þing veljist einstaklingar sem standa fastir á málstað frelsis og berjast við alla drauga sósíalismans, þar á meðal þann múr um fjármagn sem gjaldeyrishöftin eru.“