Sjúkrahúsið átti ekki fyrir lyfjum

Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. mbl.is/GSH

Staða Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja hefur aldrei verið verri en nú. Rekstrarféð er á þrotum þegar enn eru 9 mánuðir eftir af rekstrarárinu. Vísa þurfti konu sem mætti í lyfjagjöf frá, þar sem ekki var hægt að leysa lyfið út. Þetta kemur fram á vef Eyjafrétta.

„Í morgun átti ég að mæta í lyfjagjöf á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja en er þá sagt að Sjúkrahúsið geti ekki leyst út lyf, því það séu ekki til peningar fyrir lyfinu. Hvað er í gangi? Er þetta fram­tíðin? Má búast við að það verði farið að meta hverjir fái lyf og hverjir ekki? Verður kannski metið eftir aldri?“ segir í bréfi sem Margrét Júlíusdóttir skrifaði Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra. Bréfið er birt á vef Eyjafrétta í dag.

Velferðarráðherra lætur skoða málið

Margrét bendir í bréfinu á að staðan sé íbúum Vestmannaeyja mikið áhyggjuefni, ekki síst eldri íbúum bæjarins. Velferðarráðherra svaraði Margréti um hæl og þakkaði fyrir ábendinguna. „Þetta mál hefur ekki komið til mín og óvanalegt að menn gefi slíka skýringu. Vona að málið verði leyst en læt skoða það hér,“ segir Guðbjartur í svari sínu.

Eyjafréttir ræða við Gunnar Gunnarsson, framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar, sem segir að staðan sé grafalvarleg. Miðað við fjármagnið sem veitt sé í ár sé ekki hægt að veita þá þjónustu sem vant er.

Staðan verri en nokkurn tíma

„Staðan nú er verri en hún hefur nokkurn tímann verið áður. Stað­reyndin er sú að ef við værum að fá sömu fjárveitingar og 2008, uppreikn­að, þá værum við að fá 950 milljónir í reksturinn. Við erum hins vegar ekki að fá nema 708 milljónir, sem þýðir um 25% niðurskurður á þessum fimm árum. Engin önnur heilbrigðisstofnun á landinu hefur orðið fyrir eins mikl­um niðurskurði og við, sumar eru um 20% og alveg niður í 5%,“ segir Gunnar.

Allra leiða hafi verið leitað til að skera enn frekar niður og nú sé svo komið að skera þurfi niður í grunnstoðum stofnunarinnar. „Það er einfaldlega ekki lengur hægt að skera niður, án þess að það bitni á þjónustunni. Vandamálið er hins vegar það, að okkur er bannað að leggja af þá grunnþjónustu sem við eigum að veita og því erum við í pattstöðu,“ segir Gunnar.

Nánar á Eyjafréttir.is

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra segir að mál Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja verði skoðað.
Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra segir að mál Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja verði skoðað. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert