Treysta enn á frumvarp um Helguvík

Helguvíkurhöfn
Helguvíkurhöfn mbl.is/Arnór Ragnarsson

Bæjarfulltrúar meirihlutans í Reykjanesbæ segja að ítrekað hafi komið fram í máli forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar að sambærilegt frumvarp verði lagt fram um Helguvík og gert var um Bakka við Húsavík. Þeir segjast enn treysta því að frumvarpið verði lagt fram fyrir þinglok.

Á bæjarstjórnarfundi Reykjanesbæjar í gær var málefni Helguvíkur til umræðu. Þar fögnuðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar því að Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, hafi hafið viðræður við Reykjanesbæ um málefni Helguvíkurhafnar og fjárframlag ríkisins til uppbyggingar þar.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks minntu þá á að stutt sé til þingloka og að í gær hafi fjörutíu mál verið á dagskrá. Þar sjáist hins vegar hvergi til frumvarpsins um Helguvík.

„Á viðræðufundi með fjármálaráðherra var óskað eftir að forsvarsmenn bæjarins hlutuðust til um að lögð yrði fram umsögn væntanlegs Kísilvers vegna þjálfunarstyrks, sem hefur verið gert. Undirritaðir bæjarfulltrúar treysta því enn að frumvarpið verði lagt fram af ríkisstjórninni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert