20 Laugardalshallir af sandi

Frá því að rekstur Landeyjahafnar hófst árið 2010 er búið að dæla um 650 þúsund rúmmetrum af sandi úr höfninni. Við gerð hafnarinnar voru fjarlægðir um 400 þúsund rúmmetrar af sandi. Samtals eru þetta yfir milljón rúmmetrar en það jafngildir sandi sem nægir til að fylla 20 Laugardalshallir.

Í forsendum fyrir hönnun Landeyjahafnar var alltaf reiknað með að áfram þyrfti að dýpka höfnina. Reiknað var með að dæla þyrfti um 30 þúsund rúmmetrum á ári sem myndi kosta um 60 milljónir árlega. 2011 og 2012 var dælt samtals 548 þúsund rúmmetrum af sandi úr höfninni. Kostnaður við dýpkun þessi tvö ár nam samtals 542 milljónum.

Siglingastofnun bendir á að alltaf hafi verið talsverð óvissa í spá um það hversu mikið þyrfti að dýpka Landeyjahöfn eftir að hún var opnuð.

Höfnin er lokuð um 120 daga á ári

Frá því að Landeyjahöfn var opnuð í júlí 2010 hefur höfnin lokast á hverjum vetri vegna sandburðar. Vorið 2011 tókst að opna höfnina 4. maí, í fyrra var höfnin opnuð 5. apríl og í ár tókst að opna hana 19. mars. Í upphaflegum forsendum var byggt á því að Herjólfur gæti ekki nýtt höfnina í um 18 daga á ári, en síðan höfnin var opnuð hafa frátafir verið um 120 dagar á ári.

Á fundi í verkfræðideild Háskóla Íslands í dag kom fram hjá Sigurði Áss Grétarssyni, verkfræðingi hjá Siglingamálastofnun, að erfitt væri að dýpka höfnina frá nóvember fram í apríl. Raunar hefði stundum verið útilokað að reyna dýpkun í þrjá mánuði samfleytt.

Mest af sandinum í Landeyjahöfn safnast fyrir í hafnarmynninu, þ.e. við enda grjótgarðanna. Ekki er hægt að dýpka þar á mjög stórum sanddæluskipum. Björgun ehf., sem unnið hefur að dýpkun hafnarinnar, getur t.d. ekki notað stærsta dæluskipið sitt þar.

Sigurður segir að sandburður hafi minnkað verulega frá því höfnin var byggð. Hann hafi verið mestur 2010. Það ár gaus í Eyjafjallajökli, en Sigurður Sigurðarson, verkfræðingur á Siglingastofnun, sagði á fundinum í dag að í gosinu hefðu um 2 milljónir rúmmetrar af sandi farið niður Markarfljót.

Þegar Landeyjahöfn var hönnuð var reiknað með að Herjólfur gæti siglt í 3,5 metra ölduhæð inn í höfnina. Sigurður Áss segir að nú sé ljóst að skipið geti ekki siglt ef ölduhæð fer yfir 2,5 metra.

Safnþrær eða lengri garðar?

Danska straumfræðistofnunin (DHI) hefur verið Siglingastofnun til ráðgjafar um hvernig megi bæta höfnina og auka nýtingu hennar. DHI hefur varpað fram ýmsum tillögum um hvernig megi laga Landeyjahöfn. Skoðaður hefur verið sá kostur að breyta lögun hafnargarðanna, að lengja þá, að koma fyrir neðansjávargörðum, búa til safnþrær við hafnargarðana, færa Markarfljót lengra til austurs og meira að segja að færa ströndina inn um 100 metra.

Sigurður Áss Grétarsson sagði á fundinum í dag að hann hefði ekki trú á hugmyndum um stórar safnþrær, en DHI mælir með þeirri lausn. Þessi lausn gerir ráð fyrir að dýpkað verði sem nemur heildarefnisflutningum fram og til baka. Fyrst er gert ráð fyrir dýpkunarpyttum og síðar mannvirkjum til varnar. 

Sigurður Áss segir að miklu meiri rannsóknir þyrfti að gera áður en hægt sé að svara því hvort lenging á görðunum út á sandrifið, sem er framan við höfnina, skili árangri. Það hafi aldrei verið reynt áður að búa til varnargarða á sandrifi. Sú hætta sé fyrir hendi að sjórinn grafi undan þeim og þeir hrynji.

Dælubúnaður eða sumarhöfn?

Siglingastofnun hefur gert tilraunir í hermilíkani að koma fyrir dælubúnaði í hafnarmynninu. Búnaðurinn yrði með nokkrum rörum og myndi virka eins og ryksuga sem dældi sandi sem bærist með hafstraumum. Sigurður Áss segir margt benda til að þetta sé besti kosturinn. Hann sé tiltölulega hagstæður í samanburði við sanddælingu með skipum. Það sé líka hægt að dæla þá þrjá mánuði á ári sem veður komi í veg fyrir að sanddæluskip geti athafnað sig.

Sigurður viðurkenndi að þessi lausn sé ekki áhættulaus. Helsta hættan sé að ýmiskonar drasl berist í dælubúnaðinn og skemmi hann.

Á fundinum í verkfræðideild Háskóla Íslands spurði Jónas Elíasson verkfræðingur, hvort sá kostur hefði ekki verið skoðaður að láta höfnina vera í friði yfir vetrartímann og nota hana eingöngu sem sumarhöfn. Sigurður Áss segir að það hafi vissulega verið skoðað. Það sé ekki endilega ódýrasti kosturinn því dýrt sé að sigla til Þorlákshafnar og dýrt sé að dæla sandi úr höfninni ef nota eigi hana í aðeins nokkra mánuði á ári.

Fjármunum varið í að hemja foksand

Skiptar skoðanir eru um hvaðan sandurinn sem dælt hefur verið úr höfninni kemur. Sumir telja að stærstur hluti hans komi með hafstraumum, en margir eru þeirrar skoðunar að verulegur hluti hans sé foksandur af landi. Benda má á að hluti hafnargarðanna er kominn á kaf í sand og augljóst er að sá sandur kemur af landi.

Árið 2011 var búið að verja um 230 milljónum í landgræðsla á Bakkafjöru. Mikið verk er þó óunnið því að mikið sandfok er við höfnina.

Sanddæluskipið Dísa við dýpkun í Landeyjahöfn.
Sanddæluskipið Dísa við dýpkun í Landeyjahöfn. mbl.is/Styrmir Kári
Aðeins tveir staurar eru eftir við hafnargarðana en þeir voru …
Aðeins tveir staurar eru eftir við hafnargarðana en þeir voru upphaflega 10. mbl.is/Styrmir Kári
Austari grjótgarðurinn í Landeyjahöfn er þakinn sandi. Við garðinn, inni …
Austari grjótgarðurinn í Landeyjahöfn er þakinn sandi. Við garðinn, inni í höfninni, er sandfjara. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert