Ekki sátt um stækkun til suðurs

Þjórsárver
Þjórsárver mbl.is/Rax

„Það er ekki vilji til þess hjá okkur að þetta sé til suðurs,“ sagði Eydís Indriðadóttir, oddviti Ásahrepps, um hugmyndir að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

Eins og mbl.is greindi frá í vikunni er vilji til þess að stækka friðlandið í Þjórsárverum og taka allan Hofsjökul inn í friðlandið auk svæða fyrir sunnan, vestan og norðan núverandi friðland.

„Það hefur aldrei verið sátt um að fara sunnar en þetta er í dag hjá heimamönnum - aldrei,“ sagði Eydís.

Hreppsnefnd Ásahrepps bókaði á fundi sínum 19. mars síðastliðinn: „Hreppsnefnd Ásahrepps tekur undir álit fulltrúa Ásahrepps í Þjórsárveranefnd frá 5. mars sl. og leggst alfarið gegn stækkun friðlands í Þjórsárverum til suðurs, þar til fyrir liggur tímasett, bindandi og undirritað samkomulag milli sveitarfélagsins og ríkisvaldsins, um fjárframlög sem tryggja uppbyggingu og rekstur upplýsingamiðstöðvar á þessu svæði austan Þjórsár.“

Skeiða- og Gnúpverjahreppur samþykkir

„Okkar fulltrúi samþykkir þessa stækkun og ég reikna með því að við samþykkjum það líka eða ég á ekki von á öðru,“ sagði Björgvin Skafti Bjarnason, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

-Og það er sátt um það innan hreppsnefndar?

„Já ég veit ekki annað. Við eigum eftir að taka þetta fyrir. Þetta var bara kynning en er búið að vera lengi í deiglunni. Það er helst framkvæmdin sem við höfum einhverjar áhyggjur af. En ég á ekki von á öðru en að þetta verði samþykkt.“

-Var almenn sátt á kynningarfundi um daginn í Árnesi?

„Já ég túlka það þannig. En menn eru með sínar efasemdir og sérstaklega um að það verði staðið við ákveðna vöktun. En það er í sjálfu sér hlutur sem ekki er hægt að sannreyna. En ég held að almennt séu menn tilbúnir í þetta. Það sé enginn ágreiningur um það svoleiðis.“

Stendur til að ljúka fyrir kosningar

Samkvæmt heimildum mbl.is kom það skýrt fram á fundi um málið í Árnesi fyrr í vikunni að til stæði að klára málið fyrir kosningar, í ráðherratíð Svandísar Svavarsdóttur. Það verða hinsvegar allar sveitarstjórnir að skrifa undir skilmálana til þess að það sé hægt og ljóst að ekki er til staðar full sátt um tillöguna eins og hún lítur út nú.

Fyrir utan jökulinn sjálfan liggja mestu hagmunirnir í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og varðandi Holtamannaafréttar sem er í eigu Ásahrepps og Rangárþings ytra. Að öðru leyti er um að ræða sjálfan Hofsjökul. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram á síðustu árum um stækkun friðlands í Þjórsárverum en þeim hefur fram til þessa verið hafnað af heimamönnum.

Vilja Hofsjökul undir friðland

Hér má sjá núverandi friðlönd sunnan og vestan Hofsjökuls og …
Hér má sjá núverandi friðlönd sunnan og vestan Hofsjökuls og svo tillögu að stækkun friðlandsins um Þjórsárver. mbl.is/Elín Esther
Eydís Indriðadóttir, oddviti Ásahrepps.
Eydís Indriðadóttir, oddviti Ásahrepps.
Björgvin Skafti Bjarnason, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
Björgvin Skafti Bjarnason, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert