Ítölunefnd vegna afréttarins Almenninga í Rangárþingi eystra hefur skilað niðurstöðu sinni til sýslumanns Rangæinga sem skipaði nefndina í september síðastliðinn. Í nefndinni voru fulltrúi sýslumanns, fulltrúi Landgræðslu ríkisins og fulltrúi Bændasamtaka Íslands.
Nefndin klofnaði í afstöðu sinni og meirihluti hennar leggur til að fyrstu fjögur árin megi beita á afréttinum 50 fullorðnum ám með lömbum. Síðan 90 ær með lömum næstu fjögur árin og loks 130 ær með lömbum. Áhersla er lögð á að fara alltaf með sömu ærnar á afréttinn þannig að þær verði hagvanar. Afrétturinn var ekki nýttur árin 1990 til 2011. Uppgræðsla á svæðinu hófst árið 1973 og stóð þá til 1980 en hófst að nýju árið 1994 og stendur enn.
Fulltrúi Landgræðslunnar skilaði séráliti og telur afréttinn óbeitarhæfan. Að beiðni Landgræðslu ríkisins vann Landbúnaðarháskóli Íslands mat á beitarþoli og ástandi gróðurs- og jarðvegs á afréttinum. Niðurstaða þess mats var að afrétturinn væri óbeitarhæfur og aðeins lítill hluti hans væri algróinn. Afrétturinn í heild telur tæpa 4.600 hektara.