„Samkvæmt stjórnarskrá er Alþingi friðheilagt og má enginn raska friði né frelsi þess samkvæmt stjórnarskránni. Því legg ég til að afmarkað verði ákveðið svæði í næsta nágrenni þingsins sem nefnist Alþingissvæðið og þar fari ráðherra með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála,“ segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, í bréfi til fjölmiðla en hún hefur lagt fram frumvarp á Alþingi laga um skipulags- og mannvirkjamál á Alþingissvæðinu.
Í frumvarpinu er lagt til að afmarkað verði ákveðið svæði í næsta nágrenni þingsins sem nefnist Alþingissvæðið. Þar fari ráðherra með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála.
„Markmiðið er að tryggja ábyrgð Alþingis á gerð skipulagsáætlana og þátttöku í veitingu framkvæmdaleyfa og byggingarleyfa á Alþingissvæðinu,“ segir í bréfi Ástu Ragnheiðar.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sett verði á fót sérstök skipulags- og bygginganefnd Alþingissvæðisins sem annist gerð aðal- og deiliskipulags innan reitsins sem mun afmarkast frá horni Lækjargötu og Vonarstrætis að Tjarnargötu, frá Tjarnargötu að Kirkjustræti, frá Kirkjustræti að Aðalstræti, frá Aðalstræti að Vallarstræti, frá Vallarstræti að Veltusundi, frá Veltusundi að Austurstræti, frá Austurstræti að Lækjargötu og frá Lækjargötu að Vonarstræti.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að „gert sé ráð fyrir að starfsemi skipulags- og byggingarnefndar Alþingissvæðisins verði með svipuðu sniði og skipulagsnefndar Keflavíkurflugvallar. Þó eru í frumvarpinu nokkuð ítarlegri ákvæði um framkvæmd skipulagsmála, auk þess sem lagt er til að skipulags- og byggingarnefnd Alþingissvæðisins fari með sambærilegt mannvirkjavald og byggingarnefndir sveitarstjórna skv. 2. mgr. 7. gr. mannvirkjalaga.“
Í frumvarpinu sjálfu segir: „Alþingi ber ábyrgð á að gert sé aðalskipulag fyrir Alþingissvæðið. Skipulags- og byggingarnefnd Alþingissvæðisins annast í umboði Alþingis vinnslu, kynningu og afgreiðslu aðalskipulags. Alþingi ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags og leggur fyrir nefndina til afgreiðslu. Samþykkt nefndarinnar á deili- eða aðalskipulagstillögu fyrir Alþingissvæðið telst fullnaðarafgreiðsla málsins á sveitarstjórnarstigi. Skipulags- og byggingarnefnd Alþingissvæðisins fjallar um leyfisumsóknir og veitir framkvæmdaleyfi.“
Þá segir enn fremur: „Skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar starfar með skipulags- og byggingarnefnd Alþingissvæðisins. Hann hefur umsjón með skipulagsgerð, eftirlit með framkvæmdaleyfisskyldum framkvæmdum og annast að öðru leyti þau verkefni sem honum eru falin af nefndinni og mælt er fyrir um í skipulagslögum, nr. 123/2010. Skipulagsfulltrúi situr fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétt.“