Tæpur þriðjungur félagsmanna í Samtökum iðnaðarins telja að krónan henti illa sem gjaldmiðill fyrir atvinnurekstur sinn, eða 29%, samkvæmt skoðanakönnun sem Capacent Gallup gerði fyrir samtökin. Litlu færri, eða 26%, telja að krónan henti atvinnurekstri þeirra vel. 41,2% telja hins vegar að krónan henti rekstri þeirra hvorki vel né illa.
Fram kemur á heimasíðu SI að fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði telja frekar að krónan henti rekstri þeirra illa en annars sé lítill munur eftir öðrum greinum. Hins vegar sé greinilegur munur á milli byggðarlaga. Þannig séu fyrirtæki á landsbyggðinni sáttari við krónina sem gjaldmiðil en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu.
Einnig var spurt um áhrif gjaldeyrishaftanna á rekstur fyrirtækja en 49% aðspurðra sögðu höftin hafa lítil eða engin áhrif, 29% sögðu áhrifin hvorki mikil né lítil og 20% sögðu þau mikil. Fram kemur að höftin hafi meiri áhrif eftir því sem útflutningur er hærra hlutfall af heildarumsvifum fyrirtækisins.
Þá telja 65% aðstæður í efnahagslífinu frekar eða mjög slæmar, um fjórðungur að þær séu hvorki góðar né slæmar og 8,4% að aðstæður séu góðar. Þá telur rúmur meirihluti, eða 53%, að aðstæður eigi ekki eftir að breytast á næstu 6-12 mánuðum, 22,5% að þær muni verða nokkru betri og 24% að aðstæður verði verri en þær eru núna.