„Erum að flytja út um helgina“

Langvinnar deilur milli eigenda íbúða í fjölbýlishúsi í Reykjavík hafa leitt til þess að nauðsynlegar viðgerðir hafa ekki verið gerðar á rakavandamáli. Íbúar í þeirri íbúð þar sem vandamálið er stærst hyggjast flytja út úr íbúðinni um helgina þar sem hún sé óíbúðarhæf. Dómkvaddur matsmaður mun leggja mat á skemmdirnar.

Þingfesta átti málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og skipa matsmann til að leggja mat á skemmdirnar. Málinu var hins vegar frestað fram í byrjun apríl. Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir, lögmaður eigenda tveggja íbúða í húsinu, segir að þar sem ekki hafi náðst samstaða milli eigenda í húsinu þurfi að byrja á því að fá dómkvaddan matsmann til að meta hvað þurfi að laga og hvað það kostar.

Ef ekki næst samkomulag um viðgerðir í kjölfar matsins þarf að höfða dómsmál á hendur eigendum hinna íbúðanna tveggja. Meðal þess sem vísað er til í máli sem þessu er 38. grein laga um fjöleignarhús. Í henni segir: „Eiganda er rétt að láta framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á sameign á kostnað allra ef hún eða séreignarhlutar liggja undir skemmdum vegna vanrækslu á viðhaldi og húsfélagið eða aðrir eigendur hafa ekki, þrátt fyrir tilmæli og áskoranir, fengist til samvinnu og til að hefjast handa í því efni.“

Ráðlagði þeim að flytja út

Ásta Guðjónsdóttir býr ásamt fjölskyldu sinni í íbúðinni þar sem rakaskemmdirnar eru mestar. Fjölskyldan keypti íbúðina árið 2007 og var henni tilkynnt af fyrri eigendum að minniháttar rakaskemmdir væru í íbúðinni en til stæði að ráðast í viðgerðir. Það reyndist ekki alls kostar rétt því ósætti um viðgerðirnar hafði þá staðið í nokkur ár. Undanfarin sex ár hefur svo enn ekki náðst samstaða um viðgerðir.

Staðfest hefur verið að rakaskemmdir og myglusveppur séu í íbúð Ástu og fjölskyldu. Sökum þess að heilsu þeirra hrakaði innsigluðu þau svefnherbergi í fyrrahaust og bjuggu um sig í stofunni. Fjölskyldan hefur engu að síður glímt við heilsubrest síðan. „Við erum að flytja út um helgina,“ segir Ásta en hún fór með börn sín tvö til læknis í morgun. Hann ráðlagði þeim öllum að yfirgefa íbúðina hið snarasta, en 11 ára dóttir hennar hefur  reyndar búið annars staðar undanfarnar sex vikur. Hún er með ofnæmi fyrir myglu og meðal annars hefur húð flagnað af henni sökum þess.

Þrátt fyrir að um tvær íbúðir sé að ræða á móti tveimur er staðan þannig að eigendur þeirra tveggja íbúða sem vilja fara í viðgerðirnar eiga 48% hlut í húsinu öllu. Eigendur þeirra íbúða sem standa gegn framkvæmdunum eiga hins vegar 52% hlut og teljast því meirihlutaeigendur og hafa þannig neitunarvald.

Til þess að kostnaðurinn lendi ekki aðeins á minnihlutaeigendunum þarf fyrst að fá dómkvaddan matsmann til að meta gallana og ef það næst ekki samkomulag eftir það þarf að stefna meirihlutaeigendunum. Þá kemur það til kasta dómstóla að ákveða hvort meirihlutaeigendunum beri að taka þátt í kostnaðinum.

Gerð var ástandsskoðun á húsinu í fyrra og var niðurstaðan úr henni að það kosti 8,5 milljónir króna að gera við skemmdirnar. Alls óvíst er hins vegar hvað kemur út úr hinu nýja mati dómkvadda matsmannsins. En á meðan ekki fæst úr málinu skorið býr Ásta og fjölskylda hennar annars staðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert