Evrusvæðið að styrkjast

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson. mbl.is/RAX

„Þannig að þetta breytir ekki minni skoðun um það að evrusvæðið er alveg klárlega á leiðinni út úr sínum erfiðleikum,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, aðspurður um efnahagsvandann á Kýpur og stöðuna á evrusvæðinu. Hann telur að evrusvæðið sé að styrkjast.

Mbl.is ræddi við Össur símleiðis eftir erilsaman dag hjá ráðherranum í opinberri heimsókn til Noregs. Hann sagði við það tilefni að evrusvæðið væri að styrkjast, enda hefðu björgunarsjóðir eflst og þar með geta Evrópusambandsins til að mæta efnahagsáföllum í einstökum ríkjum evrunnar.

„Ég les Morgunblaðið og Morgunblaðið hefur skrifað fréttir um að það sjái fyrir endann á hremmingum evrusvæðisins. Ég trúi því. 

Ég tel líka að evrusvæðið sé orðið miklu betur í stakk búið til þess að takast á við vandamál eins og Kýpur, vegna þess að Evrópusambandið hefur sett saman sjóði sem eru tæki til að takast á við þetta. Kýpur, þótt það sé í svipaðri stöðu og Ísland að vissu leyti, með sjöfalda landsframleiðsu í umsvifum banka sinna, að þá er það eigi að síður svo smátt að Evrópusambandið mun ráða vel við það.

Þar að auki hefur Evrópusambandið með ýmsum hætti gripið til ráða sem draga úr líkum á því að slíkir erfiðleikar verði aftur á evrusvæðinu. Þannig að þetta breytir ekki minni skoðun um það að evrusvæðið er alveg klárlega á leiðinni út úr sínum erfiðleikum. Það undirstrikar það svo að þessir erfiðleikar voru ekki erfiðleikar gjaldmiðilsins. Þetta var ekki kreppa evrunnar. Þetta var fyrst og fremst skuldakreppa ríkja og banka,“ sagði Össur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka