Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir í viðtalinu að áætlanir Huangs hafi aldrei verið sannfærandi viðskiptamódel. Hann hafi sett ýmsar spurningar fram og ekki fengið við þeim svör.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir enga ástæðu til að koma í veg fyrir hótelframkvæmdir Huangs en hann velti fyrir sér ástæðunum á bak við ákvörðun um að byggja hótel á svo einangruðum stað að þú getir næstum því heyrt vofurnar dansa í snjónum. Eins telur Össur að ekki sé mjög viturlegt að ætla sér að spila golf á Grímsstöðum.
NYT náði ekki tali af Huang við vinnslu greinarinnar en hann var í fjallaferð þegar haft var samband við fjárfestingafyrirtæki hans í Kína.
Í skriflegu svari frá aðstoðarforstjóra Zhongkun Group, Xu Hong, neitar hann því að tilgangurinn með kaupunum sé hernaðarlegur og slíkar spurningar séu barns síns tíma, það er frá kaldastríðsárunum. Ástæðan fyrir staðarvalinu sé eftirspurn eftir slíku í Kína. Þar þyki eftirsóknarvert að vera í friði og ró. Flestir Kínverjar hafi engan áhuga á að ferðast á skítuga og háværa staði.
Össur segir í viðtalinu að hugmyndir Huangs hafi heldur aukið á efasemdir manna um tilganginn með áhuga Kínverja á norðurslóðum en Kínverjar hafa ekki farið leynt með þann áhuga.
Einar Benediktsson, fyrrverandi sendiherra, segir að enginn viti hvern fjárann Kínverar eru að hugsa í þessu máli en hann hefur skrifað nokkrar greinar í íslensk blöð þar sem hann hvetur Íslendinga til að stíga varlega til jarðar í samskiptum sínum við Kína.
Hjörleifur Sveinbjörnsson, þýðandi og vinur Huangs, segir í NYT að hann trúi því ekki að hans gamli herbergisfélagi sé í samkrulli með kínverskum stjórnvöldum varðandi kaupin á Grímsstöðum og segir að ef þeir hefðu ekki verið herbergisfélagar á sínum tíma þá hefði Huang ekki hugmynd um að Ísland væri til. Hjörleifur hefur vissar efasemdir um að áætlanir Huangs um Grímsstaði gangi upp. Jörðin er ekki sá staður á Íslandi sem hann hefði sjálfur valið fyrir lúxushótel. En tekur fram að Huang sé enginn bjáni og oft þurfi einhvern utanaðkomandi til að sjá þá möguleika sem eru fyrir hendi.
Bragi Benediktsson hefur sveiflast til og frá í því hvort hann eigi að selja sinn hlut í jörðinni frá því Huang lagði fram tilboð sitt. Honum hugnast ekki Grímsstaðir fyllist af kínverskum ferðamönnum sem ætli að spila þar golf en á sama tíma er hann heldur ekki viss um að hugmyndir Huangs verði nokkurn tíma að veruleika. Að minnsta kosti ekki á meðan hann er ofan jarðar.
Ráðagerðir Huangs hafa vakið mikla athygli en segist ætla að byggja fimm stjörnu 120 herbergja hótel „með öllu“ á Fjöllum, 18 holu golfvöll, að hann yrði með hesta og ef komið yrði niður á heitt vatn yrði byggð heilsulind. Þá gerði hann ráð fyrir að kaupa tvær til þrjár flugvélar sem hann myndi nýta til að flytja ferðamenn til landsins.