Hvergi nærri hættir að tísta

Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Þórir Ingvarsson rannsóknarlögreglumaður
Stefán Eiríksson lögreglustjóri og Þórir Ingvarsson rannsóknarlögreglumaður mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, var ánægður með tíst lögreglunnar í gærkvöldi og nótt en hann tísti á Twittervef lögreglunnar af miklum móð í tólf tíma.

Tístið var hluti af alþjóðlegu tíst-maraþoni lögregluliða (Global police tweet-a-thon) og tóku hátt í 200 lögreglulið þátt í maraþoninu í nótt.

Stefán segir að tístið hafi lukkast vel og fólk fengið gott tækifæri til að fá innsýn í störf lögreglunnar sem almenningur hefur alla jafna ekki aðgang að. Hann segir að vaktin hafi verið róleg enda föstudagskvöldin yfirleitt rólegri heldur en laugardagskvöldin.

Blaðamaður mbl.is viðurkennir að þrátt fyrir að Stefán meti vaktina rólega þá sé ljóst að það sé ýmislegt sem komi á borð lögreglunnar. Til að mynda spangól hunda og hávaða í börnum á skólalóð. Eins var mikið um hávaðaútköll, slagsmál og átök í heimahúsum.

„Þó svo það teljist rólegt í okkar bókum þá getur það komið fólki á óvart hversu mikið er að gera engu að síður,“ segir Stefán. Þess má geta að lögreglan leggur ýmislegt á sig til að leysa úr vandamálum sem íbúar leita til þeirra með. Til að mynda fannst hundaeigandinn í leigubíl á heimleið þannig að hundurinn hefur væntanlega hætt að trufla nágranna að minnsta kosti kom hávaðinn í hundinum ekki til kasta lögreglunnar á ný.

Stefán tók þátt í netfundi í nótt með fleiri lykilþátttakendum í alþjóðlega tíst-maraþoninu og segir að það sé alveg klárt að menn séu ekki að velta því fyrir sér hvort þetta verður gert aftur heldur hversu oft þetta verður gert. Því þetta virðist hafa tekist vel víða um heim. Viðbrögðin hafi almennt verið góð og jákvæð við tístinu.

Aðspurður um hvað hafi verið gert ef eitthvað verulega alvarlegt hefði gerst á vaktinni segir Stefán að þess sé vandlega gætt að ekki sé verið að deila persónurekjanlegum upplýsingum og að viðkvæmustu málin hefðu aldrei farið á tístið. Engin slík mál hafi komið upp í nótt.

„Í einhverjum tilvikum í nótt biðum við í einhvern tíma með að senda út upplýsingar um hvað væri í gangi því oftar en ekki eru tilkynningar sem við fáum óljósar um hvað sé á ferðinni. Þá hinkrum við einfaldlega við og sendum út skilaboð síðar um hvað hafi verið í gangi,“ segir Stefán.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert