„Á leið minni yfir Suðurskautslandið gerðist nokkuð ótrúlega sérstakt. Í miðri auðninni heyrði ég rödd kalla nafnið mitt,“ þannig hefst frásögn Suðurpólfarans Aarons Lindsau af því þegar hann hitti Vilborgu Örnu Gissurardóttur á jóladag.
Lindsau hefur sett myndskeið á bloggsíðu sína af Vilborgu að skíða burt eftir hin stuttu og óvæntu kynni sem eru þeim greinilega báðum mjög minnisstæð.
„Frábær jólagjöf að fá einhvern til að tala við“
„Eftir að hafa ferðast yfir 300 mílur einn datt mér aldrei í hug að ég myndi mæta neinum. En þó gerðist það,“ segir Lindsau og útskýrir að Vilborg Arna hafi unnið það afrek fyrst íslenskra kvenna og 29. manneskja í heimi til að skíða ein á Suðurpólinn.
„Hún vissi að ég var þarna og hver ég var, en ég vissi ekki af neinum þar sem ég lagði af stað mánuði á undan öllum öðrum. Heimsókn hennar kom mér því algjörlega í opna skjöldu en það var frábær jólagjöf að fá einhvern til að tala við, í eigin persónu,“ segir Lindsau.
Hann bendir jafnframt á að þúsundir manna hafi klifið Everest, en aðeins 28 hafi farið á undan Vilborgu Örnu einir á Suðurpólinn. „Mér er sagt af Everest-förum sem ég þekki að það að skíða á Suðurpólinn sé 10 sinnum erfiðara en að ná á tindinn. Og þeir skíðuðu þó með hópi fólks, ekki aleinir.“
Hljómar eins og Suðurskautslandið
Lindsau vinnur nú að heimildarmynd um sína eigin ferð á Suðurpólinn. Hann segist vera að hita sig upp með því að klippa saman stutt myndskeið og það hafi verið einkar ánægjulegt að ná fram réttu hljóði við myndskeiðið af því þegar Vilborg skíðar burt.
Hann segir að hljóðbankar þeir sem til eru með skíðahljóðum á netinu hljómi engan veginn eins og það er í raun og veru á Suðurpólnum og því hafi hann lagt sig sérstaklega fram við að ná fram réttu hljóði sjálfur.
Myndband Lindsau og Vilborgu að skíða burt má sjá hér að neðan: