Nýr Herjólfur verður aflminna skip

Herjólfur í Landeyjahöfn.
Herjólfur í Landeyjahöfn. mbl.is/Styrmir Kári

Niðurstöður vinnuhóps um hönnunarforsendur Vestmannaeyjaferju er að ferja með helmingi minna vélarafl en núverandi Herjólfur henti best til siglinga í Landeyjahöfn. Niðurstaða hermilíkan sem unnið var af FORCE Technology í Danmörku er að ferja sem er 60 metra löng með tvær 1.300 kW vélar henti best.

Vinnuhópurinn leggur í skýrslu sinni höfuðáherslu á að Landeyjahöfn verði heilsárshöfn. Jafnframt segir í skýrslunni að leita þurfi leiða til að ferjan sé eins grunnrist og mögulegt sé án þess að nauðsynlegri stjórnhæfni sé fórnað. Tekið er fram að stjórnhæfni ráðist meðal annars af stærð skipsins og talið er að ferjan þurfi að vera nálægt þeirri stærð sem höfnin er hönnuð fyrir.

Með breyttu skipulagi megi sigla fram og til baka á tveggja tíma fresti í stað þriggja tíma
fresti nú. Þannig sé hægt að auka afkastagetuna verulega og því ekki talin ástæða til að hafa áhyggjur af afkastagetu nýrrar ferju.

Minna skip með 2,8 metra djúpristu

Herjólfur er 71 metra langt skip og 16 metrar á breidd. Þvermál skrúfa skipsins er 2x3,20 metrar og í því eru tvær 2.700 kW vélar. Herjólfur ristir 4,3 metra.

FORCE Technology í Danmörku lét í hermilíkani prófa skip eins og Herjólf og þrjár aðrar ferjur til samanburðar.

Í fyrsta lagi var um að ræða ferju sem er 60 m löng, 15,1 m breið, djúprista 2,8 m, 2x1,75 m skrúfuþvermál, 2x1.300 kW Azipull skrúfur.

Í öðru lagi ferja sem er 70 m löng, 16 m breið, djúprista 2,8 m, 2x1,75 m skrúfuþvermál, 2x1.300 kW Azipull skrúfur.

Í þriðja lagi ferja sem er tvístefnungur 78 m löng, 16 m breið, 4x1,45 m skrúfuþvermál, 4x800 kW Azipull skrúfur.

„Megin niðurstaða FORCE Technology er að öll þrjú skipin sem prófuð voru reyndust betur en Herjólfur. Minnsta skipið reyndist henta best fyrir Landeyjahöfn. Skipið reyndist best vegna mikillar stjórngetu. Skipið átti auðveldast með að bregðast við skyndilegum áhrifum frá öldum og straumi sem gerir siglinguna að höfninni þar með öruggari. Það hentar best og er auðveldast að stýra inn í Landeyjahöfn af þeim skipum sem prófuð voru,“ segir í skýrslunni.

Vinnuhópurinn telur að drög að kröfulýsingu sem fylgja skýrslunni lýsi hönnunarforsendum heppilegustu ferju til siglinga á leiðinni milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar með sem minnstum frátöfum. „Að því gefnu að dýpi í Landeyjahöfn verði haldið nægu, til að um ásættanlegar samgöngur verði að ræða, leggur vinnuhópurinn til að endanleg kröfulýsing verði lögð til grundvallar hönnun ferju fyrir siglingaleiðina.“

Árið 2006 var miðað við ferjan risti 3,5 metra

Í skýrslu um hönnun Landeyjahafnar frá árinu 2006 er fjallað um nýja Vestmannaeyjaferju og þær kröfur sem gera verði til skipsins. Þar segir: „Afkastageta framdrifsvéla skipsins þurfa að vera nokkuð umfram afl til að ná framangreindum ganghraða ef miðað er við u.þ.b. 49 m. langt skip. Gera verður því ráð fyrir a.m.k. tveimur 1.500 kW aðalvélum. Þar að auki er nauðsynlegt að búa skipið a.m.k. þremur sjálfstæðum orkugjöfum/ljósavélum sem hver fyrir sig er nægjanlega afkastamikil til anna þörfum bógskrúfu undir fullu álagi.

Til að lágmarka áhættu siglinganna er nauðsynlegt að gera miklar kröfur til áreiðanleika framdrifsbúnaðar og bógskrúfu skipsins, bæði í krafti vandaðrar hönnunar og smíði þess, sem og ítarlegs fyrirbyggjandi viðhalds skipsins og búnaðar þess.“

Í þessari sjö ára gömlu skýrslu er gert ráð fyrir að ferjan verði 49 metra og að djúprista hennar sé 3,5 metrar.

Hönnun ferju boðin út sérstaklega?

Vinnuhópurinn leggur því til að hönnun skipsins verði boðin út hið fyrsta og eigi síðar en í mars. Gera má ráð fyrir að hönnun og prófanir taki 6-8 mánuði og verði lokið í árslok 2013. Stefnt skal að útboði á smíði ferjunnar í október 2013 svo að smíði geti hafist í ársbyrjun 2014. Til þess að stytta hönnunar- og smíðatíma ferjunnar þurfa þessir verkþættir að skarast. Smíði ljúki eigi síðar en í júní 2015.

Að sögn Jóhannesar Tómassonar, upplýsingafulltrúa í innanríkisráðuneytinu, er verið að fara yfir tilteknar forsendur nefndarinnar. Ekki sé búið að ákveða hvort hönnun og smíði ferjunnar verði boðin út í einu eða hvort hún verði hönnuð hér heima og smíðin boðin út sérstaklega.

Samkvæmt fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar hefur verið ákveðið að verja 2,3 milljörðum króna til smíði nýs Herjólfs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert