Hvort sem af olíuvinnslu verður á Drekasvæðinu eða ekki kann olíuleit og síðar hugsanlegar tilraunaboranir á olíusvæðum í nágrenni Íslands að skila tugmilljörðum króna í erlendum gjaldeyri á ári, að mati Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra. Hann segir alþjóðleg fyrirtæki hafa hug á að byggja upp hafnaraðstöðu hér.
Össur var í opinberri heimsókn til Noregs í gær og lýsti fundum um olíumálin svo:
„Ég fundaði með olíumálaráðherranum í morgun. Við fórum yfir stöðuna í olíumálunum. Það sem ég lagði áherslu á er að ég tel að á Íslandi eigi að byggja upp þjónustu við þau þrjú olíusvæði sem ég tel að verði í kringum 2025 norðan Íslands. Það er að segja við Austur-Grænland, á Drekasvæðinu og Noregsmegin þar, á svæði Norðmanna.
Ég tel að þetta skipti mjög miklu máli því miðað við reynslu Færeyja, ef af þessu verður, gæti þetta fært milljarðatugi í gjaldeyri inn í samfélagið á hverju ári - þ.e. ef það verður vinna á öllum svæðunum þrem og þjónustuútgerðin öll á Íslandi. Ég ræddi þetta líka við Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs í gær [í fyrradag], og skrifaði undir samning um framtíðarsamstarf í málefnum Norðurslóða, meðal annars hvað varðar olíu. En frá því er skemmst að segja að þeir tóku þessu mjög vel.“
Þrjár meginástæður
- Af hverju ættu Norðmenn ekki að vilja hafa þessa olíuinnviði á vesturströndinni hjá sér sjálfir?
„Þeir reifuðu málið þannig að það væru þrír möguleikar. Það hefur áður verið gert, meðal annars í skýrslu frá norsku olíustofnuninni.
Í fyrsta lagi Jan Mayen. Í öðru lagi á vesturströnd Noregs og í þriðja lagi kemur Ísland til greina. Ég fór yfir það með þeim að ég teldi að það væri ekki rétt að byggja upp mikinn þjónustuiðnað á Jan Mayen, meðal annars vegna þess að Jan Mayen er náttúruperla og er hluti af eyjaboganum sem rís af Norður-Atlantshafshryggnum suður eftir öllu Atlantshafi.
Um vesturströnd Noregs sagði ég að við þyrftum í allri okkar háttsemi að sýna ítrustu varfærni í umgengni við náttúruna og að það væri ekki umhverfisvænt að sigla alla leið til Noregs með mikla olíu og miklar birgðir og þjónusta olíuborpalla frá Noregi. Það þýddi auðvitað mikil ferðalög, orkueyðslu og útblástur, sem er skaðlegur.
Þá sýndu þeir mér, sem ég vissi ekki, að í einni skýrslu þeirra um þessi mál er bent á ýmsa þætti sem æskilegt væri að hafa samstarf um við Íslendinga. Þannig að ég tel að þeir séu jákvæðir gagnvart þessu og það kom fram mikil jákvæðni gagnvart Íslendingum. Þeir tóku það hins vegar skýrt fram að það væri ekki búið að taka formlega ákvörðun um það hvernig þeir hæfu leit og tilraunaboranir og að þess vegna væri ekki hægt að gera slíkt samkomulag að sinni.
En þeir voru ákaflega jákvæðir, eins og raunar ýmsir forystumenn í olíuiðnaði sem ég hitti hérna. Þannig að í framtíðinni tel ég að okkur muni takast að gera þetta. Ég hef áður rætt við ríkisstjórnina á Grænlandi um þetta. Þannig að þetta er nokkuð sem á að vera hluti af utanríkistefnunni, tel ég, að vinna að þessu fyrir Ísland.“
Sanngjörn gagnrýni
- Hvernig myndirðu bregðast við því sjónarmiði að við séum að fara fram úr okkur með því að nefna ártöl í samhengi við hugsanlegan olíuiðnað, til dæmis ártalið 2025?
„Ég myndi segja að það væri sanngjörn gagnrýni. Þetta er ekki hugarsköpun mín heldur kemur þetta ártal úr gögnum frá einum þeim fyrirtækjum sem hafa fengið tilraunaleyfi. Terje Hagevang [forstjóri Valiant Petroleum] hefur nefnt árið 2017 [í tengslum við hugsanlegar boranir]. Ártölin skipta ekki endilega máli og það skiptir heldur ekki máli þótt það verði síðar en 2025 sem þessi svæði eru komin í vinnslu. Þau munu fara í vinnslu og í aðdraganda þess, jafnvel þótt menn finni ekki olíu, að þá mun verða gríðarleg útgerð í tengslum við tilraunaboranir.“
Vilja halda óbreyttri olíuvinnslu
- Þannig að þú merkir það á samræðum við Norðmennina að þeir telji einsýnt að þarna verði tilraunaboranir, að þetta fari á það stig?
„Mér finnst það mjög líklegt. Það kemur algjörlega skýrt fram af hálfu sérstaklega sérfræðinga sem ég ræddi við ... að Noregur stefnir á að halda óbreyttri olíuvinnslu eins lengi og hægt er. Til þess að það gerist að þá þurfa þeir að fara inn á ný svæði. Það vill svo til að Jan Mayen er eitt af þeim svæðum sem menn telja að séu góðar vísbendingar um olíu og þeir sjálfir meta það, þ.e.a.s. Olíustofnunin þeirra, að þarna séu, miðað við þær upplýsingar sem þeir hafa í dag, 90 til 240 milljónir rúmmetra af olíu. Þeir eru þeirrar skoðunar að ef jarðefnaeldsneyti finnst á svæðinu séu 80% líkur á því að það sé olía en ekki gas. Það er mjög mikilvægt því gas mun lækka í verði. Það verður mikið framboð á því á næstu árum,“ segir Össur og vísar til leirsteinsbyltingarinar og kostnaðar við að flytja gas langt út á hafi.
Innviðirnir verða byggðir upp
- Per Jessing, sérfræðingur í skipaflutningum sagði á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar um norðurslóðir í vikunni, að litlar líkur séu á því að siglingar um norðurleiðina milli Asíu og Evrópu verði stór hluti af flutningum milli álfanna á næstu áratugunum. Þetta virðist ganga í berhögg við það stöðumat Kinverja, sem þú vékst að í samtali við Morgunblaðið í vikunni, að 10% af flutningum Kínverja sjóleiðina til Evrópu fari um norðurslóðir 2020. Hvernig bregstu við því?
„Það er hárrétt hjá honum að það vantar innviði á þessari leið. En menn hugsa sér að geta byggt upp innviði á Íslandi, eins og til dæmis höfn, sem yrði einn af endapunktunum Evrópumegin á þessari leið. Það er rétt að það vantar innviði en menn hyggjast byggja þá upp. Alþjóðleg fyrirtæki hafa hug á því, ef Íslendingar fallast á það, að byggja til dæmis upp slíka höfn á Íslandi. En þessi skip munu geta siglt ákaflega langar vegalengdir.
Það sem til dæmis Kínverjar sjá við miðleiðina, beint yfir pólinn, er að hana er hægt að sigla nánast alla leiðina á alþjóðlegu hafsvæði, án þess að vera í efnahagslögsögu eins eða neins, eins og til dæmis Rússa,“ segir Össur og nefnir tillögur í nokkurra ára gamalli skýrslu á vegum Jens Stoltenbergs forsætisráðherra um net gervihnatta sem gæti fylgst með skipum á þessari leið.
„Miðleiðin yfir pólin mun bráðna fyrst, þ.e.a.s. hún verður íslaus fyrst einhvern hluta ársins. Kínverjar segja að árið 2020 geti þeir opnað hana með ísbrjótum og hugsanlega hreinsað hana þannig að hún verði opin fjóra mánuði á ári.“
Viðbragðsstöð á Íslandi
Þá bendir Össur á að fyrrnefndur framsögumaður á ráðstefnunni í Reykjavík geri sér ef til vill ekki grein fyrir því að gerður hafi verið alþjóðlegur samningur á vegur norðurskautsráðsins um leit og björgun á norðurslóðum.
„Í tengslum við þennan samning verða sennilega byggðar upp á annan tug viðbragðsmiðstöðva á Norðurslóðum. Íslendingar vilja byggja upp eina slíka í alþjóðlegri samvinnu.“
Össur segir að lokum að Jessing hafi rétt fyrir sér hvað varðar norðvesturleiðina. Ólíklegt sé að hún verði notuð vegna mikils íss.