Draumórar að bíða eftir ríku útlendingunum

Helga Waage og Rakel Sölvadóttir segja fjárfestingaumhverfið erfitt hérlendis fyrir …
Helga Waage og Rakel Sölvadóttir segja fjárfestingaumhverfið erfitt hérlendis fyrir lítil fyrirtæki sem eru að stækka.

Ísland er að missa af tækifærunum sem kreppan hafði í för með sér, meðal annars með því að gera nýsköpunarfyrirtækjum erfitt fyrir við að afla fjármuna erlendis. Helga Waage hjá Mobilitus og Rakel Sölvadóttir hjá Skemu segja báðar að fjármögnunarmarkaðurinn hérlendis sé erfiður og því sæki fyrirtækin snemma út fyrir landsteinana í leit að fjárfestum.  

„Það að sækja um í fjárfestingarsjóði hér heima þýðir allt of lága upphæð fyrir allt of háa prósentu,“ segir Rakel, en nú er verið að vinna að því að færa fyrirtækið til Bandaríkjanna. Hún segir erlenda fjárfesta almennt vilja hreina fjárfestingu og að hugverkarétturinn sé skráður í heimalandinu. 

Engir hvatar fyrir íslenska fjárfesta

Rakel segir að gjaldeyrishöftin geri fyrirtækjum einnig erfitt fyrir varðandi mögulega fjárfestingu erlendra fjárfesta hér á landi. Þessir aðilar vilji geta fært fjármagn út fljótt og örugglega og þegar þeir heyri um höftin hristi þeir strax hausinn og þá sé málið búið.

Þá segir hún að mikið fjármagn sé hér á landi sem hægt sé að nota við fjárfestingu, en að engir hvatar séu fyrir fjárfesta til að beina því til nýrra fyrirtækja. Nefnir hún í því samhengi að víða um heiminn séu skattaafslættir vegna slíkra fjárfestinga.

Draumórar að bíða eftir ríku útlendingunum

Helga tekur undir með Rakel varðandi hversu erfitt sé að fá erlenda fjárfesta að íslenskum verkefnum hér á landi. „Ef við skoðum fjárfestingasögu íslenskra sprotafyrirtækja eftir hrun, þá eru einu fyrirtækin sem ég veit til að hafi fengið fjármagn erlendis þau sem hafa verið seld úr landi. Þetta með að vera að byggja upp hér á landi og að bíða eftir ríku útlendingunum með alla peningana sína, það eru draumórar sem ég sé ekki að séu að rætast,“ segir Helga. 

Hún er nokkuð harðorð gagnvart aðstæðum hérlendis og segir kröfur nýsköpunarsjóða gera fyrirtækjum erfitt að stækka. „Fjárfestingar frá Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins og Frumtaki eru þess eðlis að mjög erfitt er að sækja aukið fjármagn erlendis. Flestir fjárfestar kjósa að fjárfesta í fyrirtækjum sem starfa í lagaumhverfi sem þeir þekkja og allar óþekktar stærðir fæla frá. Þar á ég við hluti eins og til dæmis hvaða lög gilda um hugverkarétt, hver er lagaleg ábyrgð eiganda, svo maður minnist ekki á gjaldeyrishöft og aðrar slíkar hindranir.“

Sætta okkur við erlend systurfélög

Að mati Helgu verður að verða breyting á þessari hugsun. Það geti leitt til þess að fyrirtækin haldi hluta starfseminnar hérlendis, þó þau skrái hugverkaréttinn erlendis. „Við þurfum að sætta okkur við það að íslensk sprotafyrirtæki sem vilja vaxa þurfa að vera með systurfélag erlendis og það þarf að gera mönnum auðvelt að gera það og búa til hvata þannig að haldið sé eftir einhverri starfsemi heima.“

Erum að henda peningum

Helga segir þurfa að ákveða hvers konar samfélag Íslendingar vilji hafa. „Mín skoðun er sú að annaðhvort eigi menn að styðja almennilega við nýsköpun með lagaumhverfi sem skilur þarfir þess geira og sterku menntakerfi sem styður við þarfir þekkingarsamfélagsins  eða lýsa því yfir að við séum frumframleiðslusamfélag og við ætlum að hætta að moka peningum í framhaldsnám á háskólastigi og rannsóknar- og fjárfestingarsjóði. Ef við gerum þetta ekki almennilega þá erum við bara að henda peningunum,“ segir Helga.

Aðspurð hvort við séum þá ekki alltaf að henda peningum fyrst félögin þurfi að fara út segir hún svo ekki vera og bendir á að fyrirtæki eins og CCP og Össur kjósi að hafa hluta starfsemi sinnar hér á landi þótt þau séu með mikla starfsemi erlendis líka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert