Á réttum aldri fyrir Everest

Fjallagarparnir Guðmundur St. Maríusson og Ingólfur Geir Gissurarson stefna á …
Fjallagarparnir Guðmundur St. Maríusson og Ingólfur Geir Gissurarson stefna á tind Everest.

„Þegar við vorum í æfingaferð í Ölpunum í október síðastliðnum hittum við einn sem hafði farið sex sinnum á Everest. Hann sagði við okkur: Þið eruð á rétta aldrinum. Þið eruð orðnir nægjanlega þroskaðir og það er enginn ungæðisháttur í ykkur lengur,“ segir Guðmundur St. Maríusson fjallgöngumaður.

Næstkomandi laugardag heldur Guðmundur af landi brott og er stefnan tekin á hæsta fjall heims, Mt. Everest. Guðmundur verður ekki einn á ferð því með honum í för verður fjallagarpurinn Ingólfur Geir Gissurarson.

Félagarnir eru vanir fjallgöngumenn og takist þeim ætlunarverk sitt munu þeir feta í fótspor fjögurra Íslendinga sem klifið hafa þetta hæsta fjall jarðar. Það sem hins vegar sker þá úr hópnum er aldurinn en þeir eru báðir fimmtugir. Guðmundur og Ingólfur Geir verða því einnig elstu Íslendingarnir til þess að sigra hið goðsagnakennda fjall.

Smáleti kemur þeim á toppinn

Guðmundur segir þá félaga vera vel stemmda fyrir ferðinni. Líkamlegt og andlegt ástand er sagt gott, undirbúningur hefur staðið lengi yfir og félagarnir því staðráðnir í að ljúka leiðangrinum með farsælum hætti. Mottó ferðarinnar, sem tekur alls tvo mánuði, er: „enginn fær verðlaun fyrir að vera fyrstur upp í fyrstu búðir.“

„Svona leiðangur byggist á því að fara nógu hægt yfir til þess að aðlagast og spara krafta því við munum koma til með að þurfa að nota þá seinna. Þeir sem eru yngri og örari eiga á hættu að fara hraðar yfir og fá það svo í kollinn aftur,“ segir Guðmundur.

Aðeins hafa fjórir íslenskir fjallgöngumenn komist á topp Everest. Fyrstir voru Björn Ólafsson, Einar Stefánsson og Hallgrímur Magnússon árið 1997. Því næst komst Haraldur Örn Ólafsson á tindinn árið 2002 en hann hitti Guðmund og Ingólf Geir fyrir skömmu og veitti þeim einfalt ráð. Mun Haraldur Örn hafa sagt þeim að reyna að vera latir.

„Fjallamennska í háfjöllum snýst um að sýna skynsemi og sprengja sig ekki,“ segir Guðmundur og bætir við að því telji hann hið einfalda ráð fjallagarpsins vera mjög hagnýtt.

Guðmundur og Ingólfur Geir hafa stundað fjallamennsku af miklum móð síðastliðin tíu ár. Hafa þeir m.a. komist á tind Kilmanjaro, Elbrus, Aconcagua og fleiri þekkta tinda í Perú og Ölpunum. Þetta verður þó fyrsta stóra fjallið sem þeir klífa saman.

Sameiginlegur áhugi á fjallamennsku og löngun til að ferðast til Himalaya dró Guðmund og Ingólf Geir saman. „Ég var aðeins búinn að hitta hann [Ingólf Geir] áður og seldi honum þessa hugmynd. Það tók ekki langan tíma.“ Sú ákvörðun að setja stefnuna á topp Everest var hins vegar nokkuð óvænt.

„Við vorum á leiðinni á Cho Oyu, sem er 8.201 metri á hæð, og vorum búnir að undirbúa okkur í eitt ár fyrir það. En kínversk stjórnvöld lokuðu hins vegar landamærunum að Tíbet og leiðangurinn var felldur niður,“ segir Guðmundur. Vonbrigðin voru því mikil og í stað þess að slá fjallgönguleiðangri algerlega á frest var ákveðið að setja markið enn hærra.

Dúnfatnaður, klifurbúnaður og gúmmíhúðaður sími

Ferð sem þessi er að vonum mjög kostnaðarsöm enda þurfa félagarnir t.a.m. að verða sér úti um allskyns persónubúnað á borð við þykkan og skjólgóðan dúnfatnað, tæki til klifurs, og öryggisbúnað af ýmsum toga. Ofan á þetta bætist svo leiðangursgjald og annar kostnaður. Til að fjármagna ferðina hafa þeir Guðmundur og Ingólfur Geir safnað styrkjum frá hinum ýmsu fyrirtækjum og einstaklingum hér á landi.

Eitt af þeim tækjum sem nauðsynlegt er að taka með er farsími. Síminn sem umræðir er þó ekki líkur hefðbundnum snjallsíma sem flestir eiga að venjast því hann er klæddur mjög þykkri gúmmíhúð.

„Það er þykkt gúmmí utan á honum og þarf maður skrúfjárn til þess að skipta um batterí. En batteríið þolir hins vegar um 50 klukkutíma og mun meira frost en aðrir símar,“ segir Guðmundur og bætir við að persónubúnaður þeirra, sem þeir bera í bakpokum sínum, komi til með að vega 12-15 kíló.

Everest fjall nær 8.848 metra hæð og segir Guðmundur að við slíkar aðstæður lækki súrefnismagn niður í um 30 prósent. Fleira kemur þó til með að gera þeim erfitt fyrir á göngu sinni um fjallið. Má í því samhengi nefna hitastig en reikna má með um fjörutíu gráða frosti, auk vindkælingar, þegar farið er upp efstu hlíðar.

Spurður hvort ekki sé einkennilegt til þess að hugsa að brátt muni hann takast á við hæsta tind heims kveður Guðmundur já við. „Það er bæði spenna en jafnframt smá ótti. Þó að maður telji sig tilbúinn  eru ýmis ytri skilyrði á borð við veður sem maður hefur enga stjórn á.“

Farið verður upp suðurhlíðina

Gjarnan er talað um tvær helstu leiðir upp Everest fjall. Annars vegar er um að ræða suðurhlíðina sem kennd er við fjallamanninn Edmund Hillary og hins vegar norðurhlíðina. Guðmundur og Ingólfur Geir munu takast á við suðurhlíð fjallsins. Fleiri leiðir eru þó færar en þessar tvær eru langvinsælastar. Ýmis atriði ollu því að ákveðið var að leggja á suðurhlíð Everest. Ein þeirra er stórbrotin náttúrufegurð og sögulegar slóðir.

„Ég myndi segja að þessi leið væri skemmtilegri því maður gengur töluvert meira í henni. Fjallgöngumenn labba frá 2.800 metrum og það tekur tíu daga að labba upp í grunnbúðir,“ segir Guðmundur en stígurinn sem genginn er liggur t.a.m. hjá þorpi sem var mikið verslunarþorp á fyrri árum. Göngumenn geta því kynnst mannlífi og sögu svæðisins með einstökum hætti á leið sinni upp hlíðarnar.

Norðurleiðin er hins vegar nokkuð ólík. Á henni er hægt að aka upp í tæplega 5.000 metra hæð sem þýðir að fjallgöngumenn þurfa ekki að ganga jafn langa vegalengd og félagar þeirra sem staddir eru hinum megin við fjallið. Veðuraðstæður eru einnig frábrugðnar en töluvert vindasamara er norðanmegin auk þess sem brattara er á köflum.

Spurður hvort fjölskyldan hafi ekki einhverjar áhyggjur segir Guðmundur: „Ég get nú ekki neitað því. En líkamlegt atgervi okkar er gott. Það eru þó alltaf þessir utanaðkomandi þættir sem maður stjórnar ekki en til þess að svona lagað gangi upp þá þarf maður að vera heppinn.“

Liðin eru 60 ár frá því að Edmund Hillary og Tenzing Norgay komust fyrstir manna á tind Everest hinn 29. maí 1953.

Félagarnir eru brattir á að líta og staðráðnir í að …
Félagarnir eru brattir á að líta og staðráðnir í að ná markmiði sínu.
Everest
Everest AFP
Göngumenn á leið upp Everest.
Göngumenn á leið upp Everest. AFP
Frá grunnbúðum
Frá grunnbúðum AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka