Ríkisstjórnin í „öngstræti“

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Staðan í þinginu markast af því að stjórnarflokkarnir eru fyrir löngu komnir í öngstræti með mörg sín stærstu mál og þess vegna upplifum við þennan vandræðagang sem nú er uppi,“ sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á tólfta tímanum í kvöld.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, hafði þá nýlokið við að slíta þingfundi eftir að hafa frestað honum sex sinnum yfir daginn.

Hluti þingflokks Samfylkingar vill ganga lengra en að samþykkja breytingartillögu Árna Páls Árnasonar, Katrínar Jakobsdóttur og Guðmundar Steingrímssonar í stjórnarskrármálinu.

En samkvæmt tillögunni verður hægt að breyta stjórnarskránni á næsta kjörtímabili án þess að rjúfa þing.

Þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru andvígir tillögunni í óbreyttri mynd, sem og tveim öðrum tillögum í stjórnarskrármálinu.

Þingfundur er boðaður klukkan 13.30 á morgun en þingfrestun átti samkvæmt starfsáætlun að vera 15. mars.

Minnst 41 þingmál bíða umræðu á yfirstandi þingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert